„Það má reikna með keimlíkum leik í kvöld eins og undan er gengið. Varnarleikurinn verður í öndvegi. Tíminn á milli leikja er skammur og býður ekki upp á að gera miklar breytingar,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA, í samtali við handbolta.is fyrir stundu þar sem hann var á hraðferð suður í langferðbíl með leikmönnum og starfsmönnum KA-liðsins.
Stefnan er tekin á Ásvelli í Hafnarfirði þar sem KA mætir Haukum í oddaleik í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik klukkan 19.30 í kvöld.
Eftir tvær viðureignir er staðan jöfn, hvort lið hefur skorað 52 mörk og hlotið sinn hvorn vinninginn.
Þurfum að vera með kaldan haus
Nú er ekkert sem heitir hjá báðum liðum. Sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins er í boði fyrir sigurliðið. „Við erum með tvö til þrjú atriði í sóknarleiknum sem við vonumst til þess að leysa betur úr en á mánudagkvöldið. Við vorum ekki nógu ánægðir með okkur síðustu sex til sjö mínúturnar í leik tvö. Þá vantaði meðal annars upp á að menn væru með nógu kaldan haus til að klára verkefnið með sigri,“ sagði Jónatan Þór og bætti við.
Reynir á andlegan styrk
„Þegar þreytan fer að bíta í menn þá reynir á hversu sterkur karakter býr í mönnum að ná fram því sem þeir ætla sér að gera. Nú reynir á andlegan styrk og leikgleði sem hefur verið til fyrirmyndar hjá mínum mönnum,“ sagði Jónatan Þór.
Eftir sigur á Ásvöllum í fyrstu viðureign liðanna á síðasta föstudag telur Jónatan alla möguleika vera fyrir hendi að endurtaka leikinn í kvöld. „Við erum með gæðin til þess að vinna aftur. Engin spurning um það,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA.
Viðureign Hauka og KA hefst klukkan 19.30 á Ásvöllum í Hafnarfirði. Búist er við margmenni á viðureigninni og þess vegna er gott að mæta tímanlega.