Eftir fjóra tapleiki í röð þá tókst Aarhus United að vinna leik í kvöld í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik þegar það sótti Ajax heim í höfuðborgina, Kaupamannahöfn, 29:21. Thea Imani Sturludóttir skoraði eitt mark fyrir Árósarliðið í tveimur skotum.
Aarhus United var með yfirhöndina frá upphafi til enda þessa leiks. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:10.
Thea og félagar lyftu sér þar með upp í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur nú 11 stig að loknum 12 leikjum. Ajax er næst á eftir með níu stiga.
Esbjerg er í efsta sæti með 21 stig eftir 11 leiki. Viborg og Odense er í öðru og þriðja sæti með 20 stig. Alls eru 14 lið í úrvalsdeildinni.
Til stóð að Vendsyssel, liðið sem Elín Jóna Þorsteinsdóttir og Steinunn Hansdóttir leika með, mætti Odense Håndbold í kvöld. Leiknum var frestað í fyrradag eftir að æfingaaðstöðu Vendsyssel á norður Jótlandi var lokað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í tengslum við minkabú á svæðinu. Leikurinn fer fram á nýju ári.