ÍBV komst í góða stöðu í undanúrslitaviðureigninni við Hauka með því að vinna fyrstu viðureign liðanna í Ásvöllum, 35:30, í kvöld. Næsti leikur liðanna verður á miðvikudaginn í Vestmannaeyjum og hefst hann klukkan 18.
Leikurinn á Ásvöllum var stórskemmtilegur og á tíðum alveg frábærlega leikinn af hálfu beggja liða. Leikmenn ÍBV voru talsvert sterkari síðustu 20 mínútur leiksins. Nokkuð virtist sama til hvaða bragðs leikmenn Haukar tóku. Ekkert beit á öflugan sóknarleik ÍBV þar sem Rúnar Kárason, Sigtryggur Daði Rúnarsson og Dagur Arnarsson fór á kostum. Þeir léku vörn Hauka afar grátt hvað eftir annað.
Ef ÍBV-liðið heldur uppteknum hætti á næstunni eru þeir til alls vísir.
Haukar voru með eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik eftir hraðan og skemmtilegan leik, 15:14. Liðin skiptust á um að hafa forystuna.
Haukar fóru vel af stað í síðari hálfleik og voru komnir með þriggja marka forystu eftir átta mínútur, 21:18. Þá fór Eyjamvörnin að bíta og sóknarleikurinn að ganga eins best var á kosið. Haukar fengu ekki við neitt ráðið og máttu játa sig sigraða
Afar skemmtileg umgjörð var um leikinn á Ásvöllum og áhorfendur tóku þátt í leiknum af lífi og sál. Greinilegt er að tími Eyjamanna í þeim efnum er runninn upp.
Mörk Hauka: Brynjólfur Snær Brynjólfsson 6/3, Darri Aronsson 6, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Ihor Kopyshynskyi 2, Heimir Óli Heimisson 2, Geir Guðmundsson 2, Kristófer Máni Jónasson 1, Gunnar Dan Hlynsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 11, 27,5% – Magnús Gunnar Karlsson 0.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 10, Sigtryggur Daði Rúnarsson 10/4, Dagur Arnarsson 4, Gabríel Martinez Róbertsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 2, Friðrik Hólm Jónsson 2, Elmar Erlingsson 2, Arnór Viðarsson 1, Ásgeir Snær Vignisson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 8, 26,7% – Björn Viðar Björnsson 3, 27,3%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is er á Ásvöllum og fylgdist með framvindu leiksins í textalýsingu hér fyrir neðan.