- Auglýsing -
- Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk, þar af sex úr vítaköstum, þegar Stuttgart vann mikilvægan sigur á Leipzig á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær, 29:25. Andri Már Rúnarsson skoraði ekki mark í leiknum fyrir Stuttgart sem mjakast aðeins frá neðstu liðunum og úr allra mestu fallhættunni.
- Ýmir Örn Gíslason var í liði Rhein-Neckar Löwen sem vann neðsta lið þýsku 1. deildarinnar, Nettelstedt-Lübbecke, 29:22, á útivelli í gær. Ýmir Örn skoraði ekki en var aðsópsmikill í vörninni að vanda. Rhein-Neckar Löwen er í 9. sæti.
- Alexander Petersson skoraði tvö mörk og Arnar Freyr Arnarsson eitt þegar Melsungen tapaði naumlega fyrir Kiel, 27:25, í Kiel í gær. Melsungen situr í áttunda sæti þýsku 1. deildarinnar.
- Elín Jóna Þorsteinsdóttir lék ekki með Ringkøbing Håndbold í gær vegna meiðsla þegar liðið vann TMS Ringsted, 35:26, í fyrstu viðureign liðanna í umspili um sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Elín Jóna meiddist í leik með íslenska landsliðinu gegn Svíum í undankeppni EM fyrir 12 dögum. Hún tók reyndar þátt í viðureigninni við Serbíu nokkrum dögum síðar en var ekki heil heilsu. Ringkøbing Håndbold og Ringsted mætast aftur í Ringsted á laugardaginn. Ef til oddaleiks kemur þá fer hann fram í Ringkøbing laugardaginn 14. maí.
- Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði ekki mark fyrir Gjerpen HK Skien þegar liðið gerði jafntefli á útivelli vð Levanger í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Um var að ræða fyrsta leik Söru og samherja í keppninni.
- Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark þegar Gummersbach vann öruggan sigur á Nordhorn, 35:25, í uppgjöri tveggja efstu liða þýsku 2. deildarinnar í handknattleik á heimavelli í gær. Gummersbach hefur nú níu stiga forskot í efsta sæti deildarinnar þegar sjö leikir standa út af borðinu hjá liðinu.
- Auglýsing -