- Auglýsing -
- Tumi Steinn Rúnarsson og samherjar hans í Coburg gerðu jafntefli við Bietigheim, 29:29, í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöldi. Leikið var á heimavelli í Bietigheim í Stuttgart. Tumi Steinn skoraði ekki mark að þessu sinni en átti eina stoðsendingu. Coburg er í 12. sæti deildarinnar af 20 liðum með 31 stig þegar liðið á fimm leiki eftir óleikna.
- Ekki blæs byrlega fyrir TV Emsdetten sem Anton Rúnarsson og Örn Vésteinsson Östenberg leika með. Liðið er næst neðst í deildinni með 21 stig þegar það á fimm leiki eftir og er fimm stigum á eftir Ferndorf sem situr í 17. sæti. Liðin í 18., 19. og 20. sæti falla þegar upp verður staðið í næsta mánuði. Emsdetten steinlá fyrir Großwallstadt í gærkvöld, 35:26. Örn skoraði eitt mark en Anton ekkert. Hann átti eina stoðsendingu.
- Storhamar, sem Axel Stefánsson þjálfar ásamt Kenneth Gabrielsen, leikur til úrslita um sigurlaunin í úrslitakeppninni í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna. Storhamar vann Sola í gær, 35:30, á heimavelli Sola í annarri viðureign liðanna. Framlengingu þurfti til þess að knýja fram úrslit en jafnt var, 29:29, að loknum 60 mínútna leik. Væntanlega mætir Storhamar liði Evrópumeistara Vipers í úrslitum. Vipers leikur við Molde í kvöld.
- Sænska landsliðskonan Johanna Westberg hefur ákveðið að hætta að leika handknattleik sem atvinnukona í íþróttinni. Hún skýrði frá ákvörðun sinni í gær en útilokar ekki að taka upp þráðinn sem áhugamaður síðar meir. Westberg hefur síðustu árin leikið með Nykøbing Falster Håndboldklub og varð m.a. danskur meistari með liðinu 2018 og bikarmeistari árið eftir. Westberg fór í fæðingarorlof undir lok síðasta árs.
- Auglýsing -