- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allt önnur ára yfir liðinu í ár

Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður Skövde t.v. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Mér finnst vera önnur ára yfir liðinu okkar núna heldur en í fyrra. Þá var bara geggjað að komast í úrslit en núna er eins og það verði ekkert merkilegt ef við vinnum ekki titilinn,“ segir Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður IFK Skövde sem mætir Ystads IF í kvöld í fyrstu viðureign liðanna um sænska meistaratitilinn í handknattleik. IFK Skövde sem varð í öðru sæti í úrvalsdeildinni í vetur leikur annað árið í röð til úrslita en lið félagsins hefur aldrei unnið titilinn þrátt fyrir nokkrar atlögur í gegnum tíðina. Fyrsta viðureignin verður i Skövde.


Þrjátíu ár eru síðan Ystads IF vann titilinn síðast. Liðið vann óvæntan en sannfærandi sigur á ríkjandi meisturum Sävehof í undanúrslitum, 3:1, í leikjum talið. Meðal leikmanna liðsins er hinn gamalreyndi sænski handknattleiksmaður, Kim Andersson, sem hefur orðið þýskur meistari en aldrei unnið titilinn heima fyrir.


Skövde vann Hammarby í átta liða úrslitum og Kristianstad í undanúrslitum, 3:1, í leikjum talið.

Mikil eftirvænting

„Það er sérstaklega mikil eftirvænting hjá okkur að byrja einvígið eftir að hafa tapað í úrslitum í fyrra. Einnig er þetta í fjórða eða fimmta sinn í gegnum tíðina sem lið Skövde leikur til úrslita og aldrei unnið. Það yrði geggjað að taka þátt í fyrsta SM-Gold-inu hjá Skövde,“ sagði Bjarni sem er að ljúka öðru tímabili sínu hjá félaginu.

Erum reynslunni ríkari

„Auðvitað erum við líka reynslunni ríkari að hafa spilað í úrslitum í fyrra og stór hluti liðsins búinn að spila nokkrum sinnum í SM-final. Ég held til dæmis að enginn leikmaður í Ystad IF sé búinn að spila áður í SM-final, ekki einu sinni Kim Andersson. Þess vegna var það kannski nokkuð óvænt að þeir hafi slegið út Sävehof í semi-final en vissilega hefur Ystad á að skipa afar sterku liði. Að sama skapi erum við með mjög gott lið, nánast það sama og í fyrra þó með nokkrum breytingum. Ég býst að sjálfsögðu við hörkuleikjum,“ sagði Bjarni Ófeigur sem var einn besti leikmaður Skövde í vetur.


Skövde og Ystads mættust tvisvar í úrvalsdeildinni í vetur og unnu þau hvort sinn leikinn á heimavelli.

Þetta verður veisla

Spurður segist Bjarni vera í toppformi og hlakki til leikjanna. „Ég er í toppstandi og búinn að vera það meira og minna allt tímabilið. Ég get bara ekki beðið eftir að byrja þetta, SM-final, þrjúþúsund stuðningsmenn í stúkunni og allt undir. Þetta verður veisla,“ sagði Bjarni Ófeigur Valdimarsson leikmaður IFK Skövde.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -