- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hættur – er hrikalega stoltur af starfi mínu hjá ÍR

Kristinn Björgúlfsson, hefur ákveðið að láta gott heita við þjálfun karlaliðs ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta með liðið og tilkynnti stjórninni það á fimmtudaginn,“ segir Kristinn Björgúlfsson í samtali við handbolta.is. Kristinn hefur þjálfað karlalið ÍR síðustu tvö ár. Það kemur í hlut annars að stýra ÍR-liðinu í Olísdeildinni en undir stjórn Kristins endurheimti ÍR á dögunum sæti sitt í deildinni.


Kristinn tók við þjálfun ÍR þegar handknattleiksdeildin var í fjárhagslegum ólgusjó. Fyrir vikið hefur m.a. reynt á Kristinn og fleiri að halda starfinu gangandi. Nú þegar deildin er komin fyrir vind telur hann rétt að aðrir taki við keflinu. Kristinn kveðst vera sáttur við ákvörðun sína og kveður ekki með látum.

Markmiðin náðust

„Markmiðin sem ég setti mér þegar ég tók við eru í höfn. Ástandið þekkja allir þegar ég tók við og mér var ljóst að liðið myndi falla um deild, þrátt fyrir yfirlýsingar mínar um úrslitakeppni og nokkur frökk viðtöl.


Gaurarnir sem ég fékk í hendurnar voru að koma upp úr þriðja flokki eða höfðu aldrei fengið tækifæri í meistaraflokk. Ég sagði það einhversstaðar þegar ég tók við að það væru fullt af gaurum í ÍR sem enginn hefði séð áður. Allir í handboltanum vita nú hver Hrannar, Viktor, Dagur, og Sveinn Brynjar eru svo nokkrir séu nefndir,“ segir Kristinn og bætir við að hann sé stoltur af vinnu sinni með ÍR síðustu tvö ár.

Hárréttur tímapunktur

„Ég er hrikalega stoltur yfir starfi mínu hjá ÍR. Fyrir mér er tímasetningin rétt, það er að láta gott heita. Einhver á eftir að segja að það sé ekkert til að vera stoltur yfir og árangurinn sé enginn. Þær athugasemdir koma frá fólki sem hefur ekkert vit á sportinu. Að taka við liðinu á þeim stað sem það var á, stýra því í 22 leikjum án sigurs og fara með það aftur upp gerist ekki að sjálfu sér.

Heiðurinn er strákanna

Ég er leikmönnum ótrúlega þakklátur fyrir þá vinnu sem þeir lögðu í verkefnið með mér. Oftar en ekki hef ég sennilega verið óþolandi og talað mögulega of mikið um litlu hlutina. Heiðurinn er þeirra,“ segir Kristinn léttur í lund.

Samningur lá á borðinu í vetur

Kristinn segir að áhugi hafi verið fyrir hendi af hálfu stjórnenda ÍR að hann héldi áfram þjálfun liðsins. Samningur hafi legið fyrir á borðinu síðla vetrar en eftir að ÍR-liðið tapaði niður forskoti á endaspretti Grill66-deildarinnar hafi verið ákveðið að hinkra við að rita undir samninginn.


„Þegar ljóst var að við færum í umspilið en ekki beint upp úr deildinn var samningurinn lagður til hliðar. Eftir að við kláruðum verkið þá leið eðlilegur tími að ákvörðunartöku. Ég hitti menn frá meistaraflokksráði í vikunni og tók ákvörðun út frá því.

Svoleiðis á það að vera

Örugglega eru einhverjir sem vildu ekki hafa mig áfram og aðrir sem vildu halda í mig. Það er bara alltaf þannig og svoleiðis á það líka að vera,“ segir Kristinn sem er óviss um hvað taki við hjá sér í þjálfun en henni hefur hann sinnt meðfram fullu starfi á öðrum vettvangi. Kristinn segist vera opinn fyrir öllu. Hann horfir ekkert frekar til þess að verða aðalþjálfari hjá öðru liði, geti alveg eins verið aðstoðarþjálfari eða tekið að sér leikgreiningar.


„Bendir maður ekki á að ég sé í símaskránni og vonast eftir að síminn hringi,” segir Kristinn glettinn á svip og heldur áfram.

Aðstoðarþjálfari eða leikgreinandi

„Satt að segja þá veit ég ekki hvað tekur við, en ég hef fullan áhuga á að starfa áfram í kringum handbolta. Spurningin er í hvaða hlutverki það verður.
Hlutverkið þarf ekki að vera aðal. Ég var aðstoðarþjálfari hjá Bjarna Fritz og þá var nálgunin á giggið öðruvísi, en ótrúlega áhugaverð og skemmtileg. Sem aðstoðarþjálfari nærðu oft mjög góðri tengingu við leikmenn sem aðalþjálfari getur ekki leyft sér.


Ég hef hrikalegan áhuga á klippi- og greiningavinnu og gæti alveg hugsað mér að starfa við að klippa og greina leiki fyrir einhver félög. Það er vinkill sem ég hef hugsað töluvert. Bjóða liðum upp á að að taka klippivinnuna fyrir þau, mögulega greina andstæðinga fram í tímann og hafa jafnvel skoðanir á hvernig leggja eigi upp leiki. Það myndi létta álagi af þjálfurum og mögulega gætu þeir grætt á nýrri sýn. Ég hef haft þetta í maganum í töluverðan tíma og rætt t.d við Bjarka Ólafsson knattspyrnuþjálfara í Katar um stöðuna,“ segir Kristinn Björgúlfsson fráfarandi þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -