„Við áttum góða kafla í báðum hálfleikum en meira var það ekki að mínu mati,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, vonsvikin eftir tap fyrir Val, 27:26, í öðrum úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í Origohöllinni í kvöld. Staðan er jöfn í rimmunni, hvort lið hefur einn vinning.
Heilsteyptari leikur hjá Val
„Við náðum að vinna upp fjögurra marka forskot Vals á skömmum tíma snemma í síðari hálfeik. Það sýnir hvað við getum en það er ekki nóg,“ sagði Steinunn og bætti við að sennilega hafi Valsliðið náð heilsteyptari leik. „Það hefði verið geggjað að vinna að þessu sinni en því miður voru margir smáir hlutir að klikka hjá okkur að þessu sinni.“
Ströggl í sókninni
Steinunn sagði að Framliðið hafi þurft að hafa talsvert fyrir að skora mörkin að þessu sinni. „Það var eins og ströggl væri á okkur í sóknarleiknum. Við stóðum varnarleikinn ágætlega en náðum engu að síður kannski ekki eins mikið af hraðaupphlaupum og við viljum fá.“
Yfir meðaltali
Fram hefur fengið á sig 54 mörk í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitaeinvíginu við Val sem er talsvert yfir meðaltali liðsins í Olísdeildinni í vetur. Samt hefur varnarleikur liðsins verið ágætur. Steinunn sagði að sennilega væri skýringin sú að hraðinn í leikjunum væri meiri en vant er.
„Hraðinn er mikill hjá báðum liðum sem segir að þau er að leggja allt í sölurnar. Fyrir vikið eru leikirnir skemmtilegir.
Nú tekur við góð endurheimt svo maður verði klár í slaginn í þriðja leik á heimavelli á fimmtudagskvöldið. Það er stutt á milli leikja,“ sagði Steinunn Björnsdóttir leikmaður Fram í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.
Þriðji úrslitaleikur Fram og Vals verður í Framhúsinu á fimmtudagskvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.