Lítil fjölbreytni er á félagaheitum sem grafin eru á meistarabikarinn sem veittur er liðinu sem verður meistari í handknattleik karla í Króatíu. Þar er aðeins eitt nafn að finna eftir því sem næst verður komist og það er heiti RK Zagreb.
RK Zagreb varð króatískur meistari í handknattleik karla í 30. sinn í röð í gærkvöld eftir að hafa unnið RK Nexe öðru sinni, 26:24, í síðari úrslitaleik liðanna um meistaratitilinn. Leikið var í Nexe. Zagreb vann fyrri viðureignina sem fram fór í Zagreb, 31:26.
Allt frá 1992 hefur RK Zagreb einokað úrvalsdeildina í Króatíu og fátt bendir til annars en að svo verði áfram þótt RK Nexe hafi upp á síðkastið reynt sitt besta til þess að leggja stein í götu höfuðborgarliðsins.
Víða í Evrópu er ástandið líkt þótt vafalítið sé fjölbreytnin óvíða minni en í Króatíu.
Vardar hefur lengi nær einokað sigurlaunin í Norður Makedóníu og svipaða sögu er að segja frá Póllandi þar sem Vive Kielce varð meistari í vikunni í 11. sinn í röð. Veszprém hefur lengi hafi nokkra yfirburði í Ungverjalandi þótt Pick Szeged hafi einstöku sinnum tekist að vinna deildina, t.d. fyrir ári. Yfirburðir Györ í kvennaflokki í Ungverjalandi hafa líka verið miklir árum saman.
Í vesturhluta Evrópu ganga PSG og Barcelona að meistaratitlunum næsta vísum ár eftir ár í Frakklandi og á Spáni. Í Noregi hafa fá lið komist með tærnar þar sem Elverum hefur hælana um árabil í karlaflokki og Vipers í kvennaflokki, svo nokkur dæmi séu nefnd.