Elverum og spútnik-liðið Nærbø mætast í úrslitum norsku bikarkeppninnar í handknattleik karla. Það varð ljóst eftir að Elverum lagði Íslendingaliðið Drammen, 30:28, í undanúrslitaleik í dag í Terningen Arena, heimavelli sínum í hörkuleik. Elverum er ríkjandi bikarmeistari en þetta er í þriðja sinn í röð sem liðið kemst í úrslit keppninnar.
Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14, en fljótlega í síðari hálfleik náði Elverum tveggja til þriggja marka forskoti. Drammen tókst að jafna metin þegar 13 til 14 mínútur voru eftir en þá gáfu meistararnir í aftur og tryggðu sér sigurinn.
Óskar Ólafsson skoraði þrjú mörk í átta skotum fyrir Drammen. Viktor Petersen Norberg náði sér ekki á flug. Hann átti aðeins eitt markskot sem geigaði.
Um tíu dagar eru síðan Nærbø komst í úrslit bikarkeppninnar eftir sigur á Arendal. Stutt er síðan handbolti.is fjallaði nokkuð um ævintýri félagsins en það hefur skipað sér á bekk með fremstu handknattleiksliðum Noregs á fáeinum árum og er að mestu byggt á uppöldum leikmönnum.
Í gær komst Sola í úrslit í bikarkeppninnar í kvennaflokki með sigri á Fredrikstad Bkl., 29:22. Með Sola leikur Camilla Herrem landsliðskona. Eiginmaður hennar, Steffen Stegavik, lék með Nærbø þar til í vor að hann lagði skóna á hilluna. Stegavik er nú í þjálfarateymi Sola. Sola og Nærbø eru frá nágrenni Stavangurs.
Ekki liggur fyrir opinberlega hvenær bikarúrslitaleikirnir fara fram.