Rússneska kvennalandsliðið í handknattleik hefur orðið fyrir þriðja áfallinu á skömmum tíma í aðdraganda Evrópumótsins sem hefst í Danmörku 3. desember. Nú hefur verið staðfest að Anna Vyakhireva verður ekki með landsliðinu í keppninni. Hún meiddist í baki í viðureign Rostov-Don í Meistaradeild Evrópu um síðustu helgi. Eftir vandlega læknisskoðun er það niðurstaðan að hún geti ekki tekið þátt í EM að þessu sinni.
Vyakhireva, sem er 25 ára gömul, er örvhent skytta og þykir afar öflug, ekki síst sem gegnumbrotsmaður. Hún á að baki 91 landsleik sem hún hefur skoraði í 405 mörk.
Vyakhireva var valin besti leikmaður EM fyrir tveimur árum í Frakklandi, besta örvhenta skyttan á HM í Japan fyrir ári auk þess að vera í úrvalsliði Meistaradeildar Evrópu á síðasta keppnistímabili. Á HM fyrir ári var hún stoðsendingadrottning mótsins með 62 sendingar.
Fyrir rúmri viku meiddist Anna Sen, liðsfélagi Vyakhireva hjá Rostov-Don, á ökkla og verður frá keppni í sex vikur. Snemma í nóvember heltist stórskyttan unga, Elena Mikhaylichenko, úr lestinni þegar hún sleit krossband í hné.
FRÉTTAVAKTIN - Handbolti.is:
- Auglýsing -
- Auglýsing -
Nýlegt á handbolti.is