Aldís Ásta Heimisdóttir leikstjórnandi KA/Þórs hefur samið til tveggja ára við sænska úrvalsdeildarliðið Skara HF. Frá þessu greinir félagið í dag. Skara hafnaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í vor og féll úr keppni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um sænska meistaratitilinn. Skara er frá samnefndum bæ nærri Gautaborg.
Þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gömul hefur Aldís Ásta leikið stórt hlutverk hjá KA/Þór um árabil en hún lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki keppninstímabilið 2014/2015. Hún var einn af máttarstólpum Íslandsmeistaraliðs félagsins vorið 2021, jafnt í vörn sem sókn. Aldís Ásta lék sína fyrstu A-landsleiki í október á síðasta ári.
Aldís Ásta segir á heimasíðu Skara að hún bindi miklar vonir við veruna hjá félaginu og með henni geti hún haldið áfram að þróast sem handknattleikskona.
„Það var umboðsmaður sem hafði samband við mig í lok maí eða byrjun júní og sagði mér að lið í Svíþjóð hefði áhuga á að fá mig. Ég hugsaði mig vel um og ákvað svo að skella mér út,“ sagði Aldís Ásta við Akureyri.net fyrr í dag.
Brotthvarf Aldísar Ástu er enn ein blóðtakan fyrir lið KA/Þórs. Áður hefur Rakel Sara Elvarsdóttir samið við Volda í Noregi og Sunna Guðrún Pétursdóttir við GC Amicita Zürich. Ennfremur er ljóst að Ásdís Guðmundsdóttir og Anna Mary Jónsdóttir róa á ný mið fyrir næsta keppnistímabil þótt þau mið séu ekki kunn enn sem komið er.