- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U20: Við erum bara orðnir mjög góðir

Andri Már Rúnarsson ógnar vörn Dana í vináttuleik á Ásvöllum í mars. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég er mjög bjartsýnn fyrir okkar hönd á góðan árangur á mótinu. Flestir okkar voru saman í liðinu á EM í fyrra. Þar náðum við á köflum að sýna mjög góða leiki þótt á stundum hafi við fallið svolítið niður sem varð þess valdandi að við náðum ekki ofar en í áttunda sætið. Flestir okkar hafa tekið framförum enda hafa menn fengið stærri hlutverk hjá félagsliðum sínum en þeir voru með fyrir ári. Við erum bara orðnir mjög góðir,“ sagði Andri Már Rúnarsson einn leikmanna U20 ára landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Landsliðið hefur keppni á Evrópumeistaramótinu í Porto í dag með leik við Serba sem hefst klukkan 16.


„Við erum með sterkara lið. Allir árinu eldri og reyndari auk þess sem Tryggvi [Þórisson] er kominn inn í hópinn en hann var meiddur í fyrra. Það er mikið hungur og góð stemning hjá okkur fyrir að ná sem lengst,“ sagði Andri Már.


Fyrsta markmiðið er að komast áfram úr riðlinum og í hóp átta bestu en alls taka 16 lið þátt í mótinu í fjórum riðlum. Tvö efstu lið hvers riðils leika um átta efstu sætin en tvö þau neðri í hverjum riðli keppa um sæti níu til sextán.

Leikjadagskrá riðlakeppninnar:
7.júlí: Ísland - Serbía kl. 16.
8.júlí: Ísland - Ítalía, kl. 11.
10.júlí: Ísland - Þýskalandi, kl. 16.

„Ég geri þá kröfu til okkar að ná öðru af tveimur efstu sætum riðilsins. Ef við ætlum að gera eitthvað á mótinu þá verðum við að vinna Ítalíu og Serbíu í riðlinum. Síðan verður viðureignin við Þjóðverja á sunnudaginn hreinn úrslitaleikur um hvort liðanna tekur stig með sér í átta liða úrslit. Ég hef góða trú á að við getum unnið þýska liðið. Vissulega urðu Þjóðverjar Evrópumeistarar á síðasta ári en við erum líka með hörku gott lið.


Nú snýst málið bara um að höndla pressuna þegar kemur að stóru stundinni,“ sagði Andri Már Rúnarsson, einn leikmanna U20 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is.


Handbolti.is verður með textalýsingu frá leik Íslands og Serbíu í fyrstu umferð EM í dag. Leikurinn hefst klukkan 16.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -