- Auglýsing -
- Karim Helali, forseti handknattleikssambands Túnis, segir frá því á Facebook að Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, hafi hvatt sig til þess að láta handknattleikssamband Túnis sækja um að halda heimsmeistaramót í handknattleik á næstu árum. Moustafa og Helali hittust á fundi í Kaíró í gær í tengslum við Afríkukeppni karlalandsliða sem stendur yfir í borginni. Túnisbúar voru gestgjafar HM karla árið 2005. Síðan hefur vonandi runnið mikið vatn til sjávar.
- Afríkukeppnin i handknattleik karla hófst í gærmorgun en hún er jafnframt undankeppni fyrir HM karla á næsta ári. Fimm farseðlar á HM bíða þátttökuliðanna 13. Til stóð að 14 landslið tækju þátt en landslið Kenía heltist úr lestinni á elleftu stundu vegna skorts á stuðningi frá yfirvöldum.
- Afríkumeistarar Egyptalands unnu stórsigur á Kamerún í fyrstu umferð, 30:17. Túnis lagði Nígeríu með 12 marka mun, 30:18, Kongó vann Senegal, 31:26, Gínea hafði betur á móti Gabon, 35:22, og Angóla vann stórsigur á Sambíu, 53:24.
- Hinn 17 ára gamli Portúgali, Francisco Mota da Costa, er markahæsti leikmaður Evrópumóts landsliða karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri. Costa hefur skoraði 32 mörk í þremur fyrstu leikjum sínum á mótinu. Þar á meðal sigurmark Portúgals á Spáni, 36:35, á síðustu sekúndum leiks þjóðanna á sunnudagskvöld. Martim, bróðir Francisco, er einnig afar lofandi handkattleiksmaður og tveimur árum eldri. Hann hefur skorað 24 mörk á mótinu.
- Portúgalska landsliðið þykir afar sigurstranglegt á mótinu sem fram fer í Porto. Costa-bræðurnir leika með Sporting í Lissabon undir stjórn föður síns.
- Frá og með næsta keppnistímabili verða að vera bjölluhnappar við tímavarðaborðið í öllum leikjum 1. deildar í þýska handknattleiknum fyrir þjálfara til að styðja á vilji þeir taka leikhlé. Grænu spjöldin sem slengt hefur verið á borð ritara og tímavarða til þess að óska eftir leikhlé mun heyra fortíðinni til.
- Bjölluhnappar hafa verið notaðir á öllum stórmótum í handknattleik karla og kvenna frá árinu 2017. Þeir hafa hinsvegar ekki verið staðalbúnaður í deildarkeppni víða í Evrópu fram til þessa en hafa verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli. Hér á landi er til eitt sett af þessum búnaði í eigu Hauka. Félagið keypti hann í byrjun mars. Hefur hnappurinn verið notaður síðan í öllum heimaleikjum karla- og kvennaliða félagsins síðan og einnig í úrslitahelgi bikarkeppninnar sem haldið var á Ásvöllum í mars.
- Auglýsing -