Það eru ekki bara frændur okkar og nágrannar í Færeyjum sem eru að hefja byggingu þjóðarhallar fyrir innahússíþróttir, þar á meðal handknattleik, heldur eru Argentínumenn í svipuðum aðgerðum. Þar í landi var á dögunum undirritað samkomulag um byggingu þjóðarhallar sem eingöngu mun nýtast handknattleik.
Höllin verður í höfuðborginni, Buenos Aires, og verður í svokölluðum Ólympíugarði. Hún á að verða hjarta handknattleiks í landinu, bækistöð fyrir landslið, jafnt eldri sem yngri, auk þess sem frá henni verður stýrt metnaðarfullri áætlun um útbreiðslu handknattleiks í landinu á næstu árum.
Handknattleikur hefur átt vaxandi fylgi að fagna í ákveðnum héruðum Argentínu samfara bættum árangri landsliðanna, jafnt karla sem kvenna. Karlalandslið Argentínu hefur tekið þátt í undanförnum heimsmeistaramótum og sýnt framfarir. Meðal annars hafnaði argentínska landsliðið í 11. sæti á HM 2021 í Egyptalandi. Kvennalandsliðið hefur verið í sókn og eftir HM 20 ára kvennalandsliða í sumar er ljóst að mikill efniviður er fyrir hendi til að ná lengra á næstu árum.
Samhliða því að fagna byggingu handnattleikshallarinnar í Buenos Aires hefur handknattleikssamband Argentínu kynnt metnaðarfulla áætlun um frekari uppbyggingu íþróttarinnar í landinu til næstu fimm ára. Hleypt verður auknu lífi í kynningar og æfingar á íþróttinni í öllum héruðum landsins. Gert verður átak í menntun þjálfara og ekki síður dómara, eftir því sem Carlos Ferrea, forseti handknattleikssambands Argentínu segir í tilkynningu sambandsins á dögunum þar sem metnaðarfullri áætlun er fylgt úr hlaði.