U18 ára landslið kvenna í handknattleik heldur áfram að fara á kostum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Skopje í Norður Makedóníu. Í kvöld liðið vann liðið Norður Makedóníu með þriggja marka mun, 25:22, í Boris Trajkovski íþróttahöllinni í Skopje. Íslenska landsliðið vann þar með milliriðil eitt á mótinu og er ennþá taplaust eftir fimm leiki. Næsta viðureign verður við Holland á sunnudaginn klukkan 16.15 þar sæti í undanúrslitum verður undir.
Íslensku stúlkurnar voru með yfirhöndina frá fyrstu mínútu til síðustu í leiknum í kvöld við afar erfiðar aðstæður. Þúsundir Norður Makedóníumanna studdu dyggilega við bakið á sínu liði. Stemningin var gríðarleg og svo sannarlega andsnúin íslenska liðinu sem lét það ekki slá sig út af laginu.
Strax í byrjun tóku íslensku stúlkurnar frumkvæðið. Þær létu það ekki af hendi. Forskotið var tvö til þrjú mörk allan fyrri hálfleikinn. Varnarleikurinn var skipulagður og mjög góður.
Staðan í hálfleik var, 13:10, Íslandi í vil. Íslenska liðið hóf síðari hálfleik af krafti og komst fljótlega fimm mörkum yfir, 16:11. Norður Makedóníuliðið gerði hvert áhlaupið á fætur öðru. Ekkert þeirra braut íslensku stúlkurnar á bak aftur. Þær stóðust hverja raun, meira að segja þegar munurinn var kominn niður í eitt mark.
Niðurstaðan magnaður sigur.
Varnarleikurinn var framúrskarandi allan leikinn. Ethel Gyða Bjarnesen markvörður átti enn einn stórleikinn og varði ekki síst úr opnum færum á mikilvægum augnablikum leiksins. Sóknarleikurinn var agaður og yfirvegaður við erfiðar aðstæður.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 1, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnesen 15/1.