- Auglýsing -
- Goði Ingvar Sveinsson skrifaði á dögunum undir nýjan þriggja ára samning við Fjölni. Goði Ingvar er miðjumaður og lék upp yngri flokka Fjölnis og upp í meistaraflokk áður en hann reyndi fyrir sér með Stjörnunni leiktíðina 2020/2021. Eftir dvölina í Garðabæ sneri Goði Ingvar aftur í Grafarvoginn og tók upp þráðinn með Fjölnisliðinu.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk og Ómar Ingi Magnússon fjögur þegar þýsku meistararnir SC Magdeburg unnu danska úrvalsdeildarliðið Skanderborg Aarhus, 36:33, í æfingaleik á Jótlandi í gær en Magdeburg-liðið er þar við æfingar og keppni þessa dagana. Hollendingurinn Kay Smits skoraði 11 mörk fyrir Magdeburg.
- Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Ribe-Esbjerg sem vann Lemvig, 30:25, í æfingaleik í fyrradag. Elvar gekk til liðs við Ribe-Esbjerg í sumar eins og markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson sem sagður er hafa snúið leiknum Ribe-Esbjerg í hag með stórleik sínum. Ágúst Elí var með 46% hlutfallsmarkvörslu og varði ekki síst vel úr opnum færum. Arnar Birkir Hálfdánsson sem einnig gekk til liðs við Ribe-Esbjerg í sumar er ekki skráður markaskorari ekkert fremur en Færeyingurinn Vilhelm Poulsen sem gekk til liðs við Lemvig í sumar eftir tveggja ára veru hjá Fram. Daníel Freyr Andrésson er markvörður Lemvig. Eftir því sem næst verður komist lék Daníel Freyr annan hálfleikinn.
- Janus Daði Smárason var markahæstur hjá Kolstad þegar liðið tapaði fyrir Aalborg Håndbold 28:23 í æfingaleik í Álaborg í gær. Janus Daði skoraði sex mörk en hann þekkir vel til í herbúðum Aalborg eftir að hafa leikið með liði félagsins frá 2017 til 2020. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Aalborg.
- Carlos Ortega þjálfari Evrópumeistara Barcelona segist vera með á pappírunum öflugra lið en á síðasta keppnistímabili. Meðal nýrra leikmanna liðsins eru markvörðurinn Emil Nielsen, og sænsku landsliðsmennirnir Jonathan Carlsbogard og Hampus Wanne.
- Auglýsing -