Spánn er Evrópumeistari í handknattleik karla, 18 ára og yngri. Spánverjar unnu Svía með tveggja marka mun, 34:32, í úrslitaleik í Podgorica í Svartfjalllandi þar sem mótið hefur staðið yfir frá 4. ágúst.
Spánn er þar með Evrópumeistari 18 og 20 ára landsliða en lið landsins vann EMU20 mótið í Porto fyrir um mánuði.
Þetta var þriðji úrslitaleikur spænsks karlalandsliðs á Evrópumóti á árinu. Í janúar tapaði A-landsiðið fyrir Svíum í úrslitaleik í Búdapest.
Svíar voru marki yfir í hálfleik, 16:15, í afar jöfnum leik. Spánverjar náðu að komast yfir, 25:23, þegar síðari hálfleikur var nærri hálfnaður og mestu náðu þeir fjögurra marka forskoti, 32:28. Svíar gerðu hvað þeir gátu í lokin til að jafna metin og tókst að minnka muninn í eitt mark, 33:32, þegar hálf þriðja mínúta var til leiksloka. Nær komust þeir ekki þótt möguleikar gæfust.
Þýskaland vann öruggan sigur á Ungverjum í leiknum um bronsverðlaunin, 29:22. Yfirburðir Þjóðverja komu mörgum í opna skjöldu þar sem ungverska lék afar vel í keppninni og þótti um skeið sigurstranglegt. Liðin voru saman í riðli á fyrsta stigi mótsins með Íslendingum og Pólverjum. Ungverjar unnu viðureignina í riðlinum, 35:32, í hörkuleik.
Þjóðverjar voru sterkari í dag þegar á hólminn var komið. Varnarleikur liðsins var afar góður og markvarslan einnig.
Króatar, gestgjafar HM 19 ára landsliða á næsta ári, unnu Dani í leiknum um 5. sætið, 28:26. Norðmenn kræktu í sjöunda sætið eftir hörkuleik við Portúgal, 35:30, en jafnt var í hálfleik, 15:15.
Fimm Norðurlandaþjóðir voru í efstu sætunum tíu, sem er athyglisvert.
Röð liðanna á mótinu:
1. Spánn.
2. Svíþjóð.
3. Þýskaland.
4. Ungverjaland.
5. Króatía
6. Danmörk.
7. Noregur.
8. Portúgal.
9. Færeyjar.
10. Ísland.
11. Slóvenía.
12. Svartfjallaland.
13. Serbía.
14. Frakkland.
15. Pólland.
16. Ítalía.
Ellefu efstu liðin auk Króata tryggðu sér farseðilinn á HM 19 ára landsliða í Króatíu á næsta sumri.
Þrettán efstu eru örugg með sæti á EM 20 ára landsliða sem fram fer eftir tvö ár.