Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í meistaraliðinu Kadetten Schaffhausen tryggðu sér í dag fyrstu sigurlaunin í upphafsleik keppnistímabilsins í Sviss. Kadetten vann öruggan sigur á GC Amicitia Zürich, 32:25, í meistarakeppninni, þ.e. rimmu meistara og bikarmeistara síðasta tímabils.
Kadetten var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 14:12, eftir að liðsmenn GC Amicitia Zürich voru aðeins sprækari á upphafsmínútum leiksins. Í síðari hálfleik lék aldrei vafi á um hvort liðið væri sterkara. Mestur varð munurinn níu mörk á liðunum.
Sigur Kadetten var öruggur og virðist liðið ætla að mæta jafn öflugt til leiks á þessari leiktíð og á þeirri síðustu þegar liðið vann meistaratitilinn á afar sannfærandi hátt.
Óðinn Þór Ríkharðsson lék ekki með Kadetten í dag. Hann ristarbrotnaði á æfingu fyrir helgina eins og handbolti.is sagði frá fyrr í dag.
Ólafur var ekki með
Hafnfirðingurinn Ólafur Andrés Guðmundsson var ekki í leikmannahópi GC Amicitia Zürich að þessu sinni. Hann gekk til liðs við félagið í sumar frá Montpellier. Ekki liggur fyrir skýring á fjarveru Ólafs Andrésar í leiknum en hann var mikið frá á síðasta tímabili vegna meiðsla. Hann hefur hinsvegar verið með liðinu í æfingaleikjum upp á síðkastið.