- Auglýsing -
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk í gær þegar Önnereds vann Kristianstad HK, 35:19, í annarri umferð áttunda riðils sænsku bikarkeppninnar í handknattleik. Önnereds hefur unnið tvo fyrstu leiki sína og á sæti í 16-liða úrslitum víst eftir sigurinn í gær.
- Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk þegar lið hans Flensburg tapaði með fjögurra marka mun fyrir ungverska liðinu Veszprém, 35:31, á æfingamóti í Ungverjalandi í gær. Bjarki Már Elísson virðist ekki hafa skorað fyrir Veszprém.
- Á sama móti þá tapaði pólska meistaraliðið Kielce fyrir þýsku bikarmeisturunum í Kiel með tveggja marka mun, 35:33. Haukur Þrastarson lék með Kielce.
- Bikarmeistarar Vals í handknattleik kvenna töpuðu í gær með eins marks mun fyrir spænska liðinu Elda Prestigio, 24:23, í hörkuleik á æfingamóti í Albír á Spáni. Valsliðið mætir liði Benidorm í dag.
- Karlalið Fram tapaði með fimm marka mun fyrir liði Benidorm í gær, 27:22, á móti í Albír þar sem Framarar eru við æfingar. Afturelding tapaði fyrir Benidorm-liðinu í fyrrakvöld, 31:16. Liðin þrjú eru við æfingar og keppni í Albír í viku.
- Auglýsing -