Flautað var til leiks í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld og voru fjórar viðureignir á dagskrá og komu Íslendingar við sögu í þeim öllum.
Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar og nýliðar deildarinnar, Gummersbach, gerðu það gott í heimsókn sinni til Lemgo hvar þeir unnu með fjögurra marka mun, 30:26, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 13:12. Elliði Snær Viðarsson skorað þrjú mörk í fjórum skotum fyrir Gummersbach liðið. Dominik Mappes var markahæstur hjá Gummersbach með átta mörk en Samuel Zehnder skoraði sex mörk fyrir Lemgo-liðið sem hefur tekið nokkrum mannabreytingum frá síðasta keppnistímabili.
Johannes Golla skoraði sigurmark Flensburg fjórum sekúndum fyrir leikslok í heimsókn til HSV Hamburg, 31:30. Teitur Örn skoraði fjögur mörk í fimm skotum fyrir Flensburg en hann lék í hægra horninu að þessu sinni. Golla markhæstur með átta mörk en fyrir HSV var Jacob Lassen markahæstur með sjö.
Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk, öll úr vítaköstum, í fyrsta leik sínum með Leipzig en hann kom til félagsins í sumar frá Stuttgart. Mörk Viggós nægðu ekki í heimsókn Leipzig-liðsins til Hannover-Burgdorf. Heimaliðið vann með þriggja marka mun, 25:22. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Sime Ivic skoraði níu mörk fyrir Leipzig og var með fullkomna nýtingu. Maximilian Gerbl skoraði átta mörk fyrir Hannover-Burgdorf.
Erlangen vann Wetzlar á heimavelli, 31:27. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen. Hampus Olsson skoraði átta mörk fyrir Erlangen og var markahæstur. Jonas Schelker skoraði í sex skipti fyrir Wetzlar og var markahæstur.