- Auglýsing -
Hinn þrautreyndi handknattleiksþjálfari Guðlaugur Arnarsson kemur inn í þjálfarateymi karlaliðs KA á komandi keppnistímabili og mun starfa með Jónatan Þór Magnússyni aðalþjálfara. Sverre Andreas Jakobsson verður áfram í þriggja manna þjálfarateymi KA eins og undanfarin ár.
Samhliða störfum með meistaraflokki verður Guðlaugur þjálfari U-lið KA í karlaflokki og 3. flokk karla með Sverre. Frá þessu er sagt á heimasíðu KA í dag.
Guðlaugur lék í mörg ár í efstu deild karla hér á landi og var einnig með Gummersbach í Þýskalandi, Malmö HK í Svíþjóð og FCK í Danmörku. Eftir handknattleiksferlinum lauk þjálfaði Guðlaugur hjá Fram og síðar hjá Val. Undir stjórn hans og Óskars Bjarna Óskarssonar varð Valur Íslands- og bikarmeistari 2017 og komst einnig í undanúrslit Áskorendakeppni Evrópu.
Guðlaugur, Jónatan Þór og Sverre verða saman á hliðarlínunni við stjórnvölin hjá KA á morgun þegar liðið sækir Val heim í Origohöllina í meistarakeppni HSÍ.
Guðlaugur þekkir hvern krók og kima í Origohöllinni eftir að hafa þjálfað þar í þrjú ár. Flautað verður til leiks klukkan 16. Leikurinn markar upphaf Íslandsmótsins en flautað verður til leiks í Olísdeild karla á fimmtudagskvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.
- Auglýsing -