Bjarki Már Elísson fór á kostum og var markahæsti leikmaður vallarins þegar lið hans, Lemgo, vann Nordhorn með sjö marka mun á heimavelli, 36:29, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld. Bjarki Már skoraði átta mörk, ekkert þeirra úr vítaköstum, en honum brást bogalistin í tveimur slíkum í leiknum. Lemgo færðist upp í sjöunda sæti í deildinni með þessum góða sigri.
Neðsta lið deildarinnar, Coburg, sem hafði tapað tíu fyrstu leikjum sínum á keppnistímbilinu þegar það það sótti Guðmund Þórð Guðmundsson og lærisveina í kvöld, vann óvæntan sigur í heimsókn sinni, 32:27. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt af mörkum Melsungen.
Viggó Kristjánsson, sem í vikunni var útnefndur leikmaður nóvembermánaðar í þýsku 1. deildinni, skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar Stuttgart vann GWD Minden, 30:26, á heimavelli. Elvar Ásgeirsson skoraði ekki mark í leiknum enda lék hann nær eingöngu í vörn Stuttgart að þessu sinni. Stuttgart færðist upp í fimmta sætið með sigrinum.
Í fjórða leik kvöldsins vann Leipzig lið Wetzlar á heimavelli, 32:28.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Kiel 18(10), Rhein-Neckar Löwen 18(10), Flensburg 16(9), Stuttgart 15(11), Füchse Berlin 13(9), Leipzig 13(11), Lemgo 13(12), Göppingen 12(11), Wetzlar 12(12), Melsungen 11(9), Erlangen 11(11), SC Magdeburg 10(9), Hannover-Burgdorf 9(10), Bergischer HC 9(10), Balingen-Weilstetten 7(11), Nordhorn 6(12), Minden 5(9), Ludwighafen 5(11), Essen 3(9), Coburg 2(11).
FRÉTTAVAKTIN - Handbolti.is:
- Auglýsing -
- Auglýsing -
Nýlegt á handbolti.is