- Auglýsing -
- Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leik Elverum og Flensburg í Meistaradeild karla í handknattleik í Elverum í Noregi í gærkvöld. Flensburg vann leikinn með eins marks mun, 30:29, og komst upp að hlið Vive Kielce í efsta sæti í A-riðli, hvort lið hefur 13 stig að loknum átta leikjum. Elverum rekur lestina með tvö stig eftir sjö leiki. Þetta var eini leikur gærkvöldsins í Meistaradeildinni. Öðrum leikjum var frestað vegna kórónuveirunnar.
- Um var að ræða fyrsta leikinn sem þeir Anton og Jónas dæma í meira en tvo mánuði eða síðan keppni á Íslandsmótinu var frestað í byrjun október.
- Þriðji leikmaður þýska meistaraliðsins THW Kiel greindist smitaður af kórónuveirunni í gær. Þar með hafa næstu leikir liðsins í þýsku 1. deildinni verið frestað en þeir áttu að vera á móti Essen og Melsungen. Vonir standa til þess að leikmenn Kiel verði orðnir fjallhressir 19. desember þegar til stendur að þeir mæti Stuttgart.
- Enn lengist listi yfir þá þýsku handknattleiksmenn sem geta eða vilja ekki taka þátt í HM í Egyptalandi. Fabian Wiede, örvhenta skytta Füchse Berlin, er meiddur á öxl og hefur dregið sig út úr 35 manna hópnum sem Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, hefur úr að velja fyrir mótið.
- Óstaðfestar heimildir í Danmörku herma að Emil Jakobsen, liðsfélagi Viktors Gísla Hallgrímssonar landsliðsmarkvarðar, hjá GOG gangi til liðs við Flensburg í sumar. Hann er þó með samning við GOG fram til ársins 2022. Jakobsen hefur verið frábær á leiktíðinni og m.a. skorað 93 mörk í leikjum dönsku úrvalsdeildarinnar þar sem hann situr í þriðja efsta sæti. Einnig hefur Jakobsen leikið afar vel með GOG í Evrópudeildinni í haust og í vetur.
- Eftir að hert var á sóttvarnareglum í Danmörku í vikunni mega flest félög ekki hleypa áhorfendum inn á leiki sína. Fram til þessa hefur mátt selja allt að 500 áhorfendum aðgang að leikjum.
- Norski línumaðurinn þrautreyndi, Bjarte Myrhol, hefur ekki útilokað að taka þátt í HM í Egyptalandi. Myrhol er í endurhæfingu þessa dagana eftir að hafa gengist undir aðgerð á annarri öxlinni á haustmánuðum.
- Auglýsing -