„Ég held að deildin verði jöfn og spennandi eins og undanfarin ár. Það er mikið af ungum og efnilegum leikmönnum að koma fram hjá liðunum. Ég reikna þar af leiðandi með að fleiri yngri leikmenn eigi eftir að fá tækifæri og það muni skína í gegn þegar horft verður til deildarkeppninnar. Við höfum á að skipa mjög efnilegum yngri landsliðum, ekki síst 18 ára landsliðið sem náði frábærum árangri á HM í sumar,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson hinn þrautreyndi þjálfari kvennaliðs Vals þegar handbolti.is spurði hann út í keppnina sem framundan er í Olísdeild kvenna. Flautað verður til leiks á fimmtudaginn en fyrsta umferðin dreifist á þrjá daga.
Leikir 1. umferðar Olísdeildar kvenna Fimmtudagur 15. september: TM-höllin: Stjarnan - Fram, kl. 18. Föstudagur 16. september: Origohöllin: Valur - Haukar, kl. 18. Laugardagur 17. september: Vestmannaeyjar: ÍBV - KA/Þór, kl. 13.30. Kórinn: HK - Selfoss, kl. 18
Framarar eru að styrkjast
„Ég á von á jafnri og spennandi Olísdeild í vetur. Deildin verður nokkuð jöfn. Vissulega eigum við Valsarar möguleika á að vinna deildina en Framliðið á einnig eftir að verða sterkt og mun styrkjast á næstu dögum eftir því sem ég kemst næst með tveimur útlendum leikmönnum,“ sagði Ágúst Þór og bætti við.
„ÍBV-liðið er sterkt og vel mannað. Stjarnan er einnig með gott lið að mínu mati. Talsverð reynsla er fyrir hendi í KA/Þórsliðinu. Haukaliðið kannski meira óskrifað blað.
Nýliðarnir geta komið á óvart
Selfoss og HK eru með lið sem geta komið á óvart. Leikmannahópar beggja liða eru skipaðir ungum og efnilegum leikmönnum með reynslumönnum í bland. Bæði lið eru til alls vís á góðum degi,“ segir Ágúst Þór.
Helstu breytingar á milli leiktíða hjá Val: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir frá FH til Vals. Lilja Ágústsdóttir frá Lugi til Vals. Sara Dögg Hjaltadóttir frá Gjerpen HK Skien til Vals. Ásdís Þóra Ágústsdóttir frá Lugi til Vals. Saga Sif Gísladóttir er í fæðingarorlofi. Lovísa Thompson frá Val til Ringkøbing Håndbold. Ída Margrét Stefánsdóttir frá Val til Gróttu (lán í eitt ár). Signý Pála Pálsdóttir frá Val til Gróttu (lán í eitt ár). Ragnheiður Sveinsdóttir frá Val til Hauka. Arna Sif Pálsdóttir frá Val til Fram. Hulda Dís Þrastardóttir frá Val til Selfoss.
Snýst um að toppa á réttum tíma
„Hvað okkur í Val varðar þá ætlum við að berjast um alla titla sem eru í boði. Við erum hinsvegar ekki eina liðið sem hefur það á stefnuskránni að vinna allt. Þess vegna verðum við að einbeita okkur að því sem við erum að gera, æfa vel og halda einbeitingu. Hver veit hvað gerist eftir átta eða níu mánuði þegar Íslandsmótið verður leitt til lykta. Allt snýst um toppa á réttum tíma,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við handbolta.is um nýliðna helgi.