Ósk norska landsliðsins um að fá að búa áfram á hóteli því sem það hefur dvalið á í Kolding síðan mánudaginn 25. nóvember var synjað af stjórnendum Evrópumótsins í handknattleik kvenna. Til stendur að norska landsliðið flytji sig um set eftir milliriðlakeppnina og komi sér fyrir á hóteli í Herning, skammt frá Jyske Bank Boxen þar sem úrslitahelgi Evrópumótsins fer fram um næstu helgi.
Um 100 km er á milli Kolding og Herning. „Að mörgu leyti hefði verið þægilegra að búa áfram Kolding þar sem við höfum komið okkur ágætlega fyrir eftir nokkurra vikna dvöl,“ segir Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins við norska fjölmiðla.
Stjórnendur EM vilja að liðin fjögur sem leika til úrslita gisti í Herning yfir úrslitahelgina. Norðmenn vildi hinsvegar komast hjá því að eyða tíma í flutninga enda fylgir liðinu gríðarlegt magn af alskyns búnaði.
„Ef menn vilja ekki að við höfum það of gott þá verður að hafa það. Við látum þetta mótlæti ekki slá okkur út af laginu. Það herðir okkur og eykur bara á samstöðuna,“ segir Þórir og bæti við að stemning innan síns liðs sé mjög góð þrátt fyrir einangrun síðustu vikna.