- Auglýsing -
Kvennalið ÍBV og KA/Þórs leika á heimavelli í fyrstu umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik í næsta mánuði. Þriðja íslenska liðið sem tekur þátt í keppninni, bikarmeistarar Vals, ætla hinsvegar að láta slag standa og leika báðar viðreignir sínar í bænum Dunajská Streda í Slóvakíu, suðaustur af Bratislava.
Leikir KA/Þórs við HC Gjorche Petrov Skopje verða í KA-heimilinu föstudaginn 7. október og laugardaginn 8. október, eftir því sem fram kemur á vef Handknattleikssambands Evrópu. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 báða daga. Þetta verður í fyrsta sinn sem KA/Þór leikur á heimavelli í Evrópukeppni. Liðið var í fyrsta sinn með fyrir ári og lék þá alla leiki sína ytra, tvo í Kósovó og aðra tvo á Spáni.
Helgina eftir heimaleiki KA/Þórs tekur ÍBV á móti gríska liðinu O.F.N. Ionias í Vestmannaeyjum. Fyrri leikurinn verður laugardaginn 15. október og hefst klukkan 14. Síðari viðureignin hefst réttum sólarhring síðar. Eyjamenn taka þar með á móti Grikkjum annað árið í röð en í fyrra kom Panoramaliðið í heimsókn eftir að ÍBV hafði sótt PAOK heim. Forráðamenn og leikmenn ÍBV þekkja orðið vel til Grikkja og gríska handknattleiks eftir sex viðureignir á innan við ári.
Bikarmeistarar Vals leika við HC DAC Dunajská Streda laugardaginn 8. október og sunnudaginn 9. október. Til stendur að leikirnir hefjist klukkan 18. Valur lék báða leiki sína í Evrópukeppninni á síðasta keppnistímabili í Serbíu og beið naumlega lægri hlut.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.
- Auglýsing -