Landsliðsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason hefur skrifað undir nýjan samning við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen. Samningurinn gildir fram á mitt ár 2024 en fyrri samningur sem Ýmir Örn skrifaði undir í febrúar þegar hann gekk til liðs við félagið frá Val var til 2022.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rhein-Neckar Löwen í dag. „Ég er mjög ánægður með þetta traust,“ sagði Ýmir Örn í skilaboðum til handbolta.is í tilefni af tíðindum dagsins.
Í tilkynningunni Rhein-Neckar Löwen er haft eftir Oliver Roggisch, íþróttastjóra félagsins, að Ýmir Örn, sem er 23 ára gamall, hafi fest sig í sessi í liðinu á skömmum tíma og sé orðinn afar mikilvægur hlekkur í liðinu, ekki síst í varnarleiknum. Hlutverk hans muni bara fara vaxandi. „Hann er sannur baráttumaður,“ segir Roggisch sem veit hvað hann syngur í þeim efnum enda þekktur sem afar sterkur varnarmaður á sínum tíma.
Ýmir Örn verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handknattleik á HM sem hefst í Egyptalandi í janúar.