Góður leikur Teits Arnar Einarssonar dugði Kristianstad ekki í kvöld þegar liðið sótti Hallby heim í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Kristianstad-liðið varð að sætta sig við þriggja marka tap, 37:34. Þetta var sjötta tap liðsins í deildinni á leiktíðinni en það situr um þessar mundir í sjötta sæti með 18 stig að loknum 15 leikjum, er fimm stigum á eftir Malmö sem situr í toppsætinu.
Teitur Örn skoraði sex mörk í 12 skotum, átti þrjár stoðsendingar og var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.
Kristianstad var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:17, en varð að gefa eftir í síðari hálfleik enda hefur verið mikið álag á leikmönnum liðsins síðustu vikur og ekki færri en þrír leikir farið fram í viku hverri.
Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad, lék ekki með liðinu að þessu sinni.
Staðan í sænsku úrvalsdeildinni:
Malmö 23(15), Ystads IF 23(16), Alingsås 21(16), Skövde 19(16), Lugi 19(17), Kristianstad 18(15), Sävehof 17(14), IFK Ystads 15(15), Hallby 14(17), Önnereds 12(15), Guif 12(15), Helsingborg 10(15), Aranäs 10(15), Varberg 10(15), Redbergslid 9(16).