Handknattleikur er að vakna úr dvala á Reykjanesskaganum eftir að hafa legið í láginni um árabil. Á föstudaginn stendur fyrir dyrum aukaaðalfundur hjá Knattspyrnufélaginu Víði Garði þar sem eitt mál er dagskrá, stofnun handknattleiksdeildar. Ekki verður látið þar við sitja heldur tekið til óspilltra málanna og lið sent til leiks í 2. deild karla á Íslandsmótinu þegar flautað verður til leiks um miðjan október.
„Stofnun deildarinnar hefur hlotið brautargengi innan aðalstjórnar Víðis en samkvæmt lögum félagsins verður aðalfundur að samþykkja nýja deild innan félagsins,“ sagði Einar Karl Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Víðis og forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar í Suðurnesjabæ.
Ekki er von á andstöðu
Einar Karl sagðist ekki reikna með öðru en að stofnun deildarinnar verði samþykkt á aðalfundinum. Að lágmarki 15 verða að mæta mæta á fundinn til að hann teljist löglegur, af þeim verða tveir þriðju að vera samþykkir stofnun nýrra deildar.
Fögnum fleiri greinum
„Við tökum handboltanum fagnandi í Suðurnesjabæ,“ sagði Einar Karl en fyrst og fremst er stundaður fótbolti innan Víðis en einnig var stofnuð körfuknattleiksdeild hjá félaginu fyrir fjórum árum.
Hvatamaður að stofnun handknattleiksdeildar innan Víðis Garði er Orfeus Andreou sem búið hefur hér á landi um árabil og æfði m.a. með ÍR fyrir nokkrum árum.
Skipulagðar æfingar frá byrjun árs
Andreou hefur staðið fyrir handknattleiksæfingum í Garðinum frá upphafi þessa ársins. Æfingarnar hafa notið vaxandi fylgis og nú er svo komið að nærri tveir tugir manna stunda nú reglulegar æfingar í góðu íþróttahúsi í Garðinum.
Vígt með stórleik
Íþróttahúsið var vígt með viðureign Vals og Aftureldingar á Íslandsmóti karla miðvikudaginn 27. október 1993 að viðstöddum 380 áhorfendum eftir því sem fram kom í DV daginn eftir. Engir aðrir en Þorbjörn Jensson og Guðmundur Þórður Guðmundsson voru þá þjálfarar Vals og Aftureldingar.
Handknattleikur var stundaður á Suðurnesjum um árabil á síðustu áratugum síðustu aldar, m.a. hjá Keflavík, Njarðvík og eins á vegum Reynis í Sandgerði sem nú er hluti að bæjarfélaginu Suðurnesjabæ. Eins var Handknattleikssráð Reykjanesbæjar með keppnislið í yngri flokkum fyrir nokkrum árum.