Bjarki Már Elísson og félagar í Veszprém unnu Dinamo Búkarest, 33:30, í viðureign liðanna í Búkarest í kvöld. Bjarki Már skoraði fjögur mörk í leikum.
Dinamo var yfir framan af leiknum og var m.a. með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:15. Í síðari hálfleik náði ungverska liðið að snúa taflinu við og vinna leikinn með þriggja marka mun og vera þar með áfram með fullt hús stiga í A-riðli.
Skellur hjá Magdeburg
Þýsku meistararnir í SC Magdeburg fengu skell á heimavelli þegar þeir töpuðu fyrir frönsku meisturunum, PSG, með sjö marka mun, 29:22. Franska liðið var sterkara frá upphafi til enda og virtist hvorki ganga né reka hjá leikmönnum Magdeburg sem voru átta mörkum undir í hálfleik, 18:10.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt.
Lið PSG virtist ekkert sakna Nikola Karabatic sem var fjarverandi í kvöld.
Þau firn áttu sér stað í leik í A-riðli sem fram fór í Zagreb að heimaliðið vann Porto, 29:23. Zagrebliðið hefur ekki unnið marga leiki í riðlakeppni Meistaradeildar á síðustu árum.
Í B-riðli tapaði Aalborg á heimavelli fyrir Lomza Industria Kielce frá Póllandi, 30:28, eftir að hafa verið undir stóran hluta leiksins. Í hvert sinn sem leikmenn Aalborg áttu möguleika á að jafna metin í síðari hálfleik snerust vopnin í höndum þeirra.
Síðast þegar Felix Claar tapaði boltanum þegar liðið var í sókn, tveimur mörkum undir, 29:27, og mínúta var til leiksloka.
Þetta var fyrsta tap Aalborgliðsins í keppninni á leiktíðinni. Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk og gaf fimm stoðsendingar. Haukur Þrastarson tók talsvert þátt í leiknum, jafnt í vörn sem sókn, og skorað tvö mörk fyrir Lomza Industria Kielce sem einnig hefur fjögur stig eftir þrjá leiki í B-riðli.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgarliðsins.
Staðan í A-riðli:
Staðan í B-riðli: