- Auglýsing -
- Einar Sverrisson skoraði sitt 1000. mark fyrir meistaraflokk Selfoss í gærkvöldi. Áfanganum náði Einar á 25. mínútu leiks Selfoss og ÍBV í Sethöllinni á Selfossi í 4. umferð Olísdeildarinnar. Alls skoraði Einar 10 mörk í leiknum sem var hans 228. fyrir meistaraflokk félagsins. Suðurlandsslagnum lauk með stórmeistarajafntefli, 31:31. Frá þessu var greint á Twittersíðu handknattleiksdeildar Selfoss. Til mikils sóma er þegar félög halda vel utan um tölfræði síns íþróttafólks.
Einar Sverrisson
— Selfoss handbolti (@selfosshandb) September 29, 2022
228 leikir
1000 mörk
Einar skoraði sitt þúsundasta mark fyrir Selfoss á 25. mínútu í leik kvöldsins. Þvílíkur leikmaður!#handbolti #olisdeildin pic.twitter.com/wXxALHo7kH
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk fyrir Elverum í gær þegar liðið tapaði fyrir Nantes í þriðju umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknatteik í gærkvöld. Leikurinn fór fram í Nantes. Um var að ræða annan sigur Nantes í riðlinum. Elverum rekur lestina ásamt Pick Szeged án stiga. Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður, var ekki í leikmannahópi Nantes í leiknum. Eins og kom fram á handbolta.is á mánudaginn meiddist Viktor Gísli á olnboga fyrir um 10 dögum og verður af þeim sökum frá keppni um skeið.
- Barcelona er efst í B-riðli Meistaradeildar karla með sex stig eftir þrjá leiki og er eina taplausa liðið í riðlinum. Barcelona vann Celje, 38:30, á heimavelli í gær. Kiel vann ungversku meistarana, Pick Szeged, 34:29, og er með fjögur stig eins og Aalborg, Nantes og Kielce. Í A-riðli batt Wisla Plock enda á sigurgöngu GOG með fjögurra marka sigri í Póllandi, 31:27. Plock er með fjögur stig en GOG þrjú. Veszprém er efst í A-riðli með sex stig.
- Sigurganga Ýmis Arnar Gíslasonar og samherja í Rhein-Neckar Löwen heldur áfram. Niclas Kirkeløkke tryggði liðinu sigur á Bergischer, 27:26, á útivelli í gær. Daninn skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndum leiksins. Rhein-Neckar Löwen hefur þar með 12 stig að loknum sex leikjum í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Hvorki Ýmir Örn né Arnór Þór Gunnarsson leikmaður Bergischer skoruðu í leiknum. Ými Erni var tvisvar vísað af leikvelli. Þetta var í fyrsta sinn sem Sebastian Hinze mætir sínum gömlu lærisveinum eftir að hann hætti þjálfun Bergischer í sumar og tók við þjálfun Rhein-Neckar Löwen.
- Hannover-Burgdorf vann GWD Minden, 35:34, á útivelli í þýsku 1. deildinni í gærkvöld. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er í 7. sæti með átta stig eftir sex leiki.
- Leikmenn Stuttgart risu úr öskustónni í gærkvöld og unnu sinn fyrsta leik í þýsku 1. deildinni er þeir tóku á móti Lemgo, 32:28. Þjálfara Stuttgart, Roi Sánchez, var sagt upp störfum um síðustu helgi eftir að liðið hafði tapað fimm fyrstu leikjum sínum.
- Auglýsing -