- Auglýsing -
- Ágúst Björgvinsson skoraði 16 mörk þegar ungmennalið Aftureldingar vann ungmennalið Gróttu, 40:31, á Varmá í gærkvöld í upphafsleik 2. deildarkeppni karla í handknattleik. Stefán Scheving Guðmundsson var næstur Ágústi með átta mörk. Antoine Óskar Pantano var atkvæðamestur Gróttumanna með átta mörk. Kári Kvaran var næstur á eftir með sex mörk.
- Fabian Wiede, örvhent skytta Füchse Berlin, varð að draga sig út úr þýska landsliðinu vegna meiðsla. Í hans stað kallaði Alfreð Gíslason í Franz Semper leikmann Flensburg. Semper hefur ekki verið í þýska landsliðinu síðan á HM 2019. Wiede er annar leikmaðurinn sem verður að draga sig út vegna meiðsla. Hinn er línumaðurinn Jannik Kohlbacher. Þýska landsliðið mætir sænska landsliðinu annað kvöld og spænska landsliðinu á laugardaginn í Evrópubikarkeppni landsliða en í þeirri keppni taka þátt fjögur landslið sem ekki taka þátt í undankeppni EM 2024.
- Hið fornfræga danska handknattleiksfélag Ajax København óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í gær. Um er að ræða þann anga félagsins sem rekið hefur karlalið félagsins sem átti sæti í næst efstu deild. Karlalið Ajax varð níu sinnum danskur meistari og er það þriðja sigursælasta frá upphafi. Það var stofnað árið 1934.
- Nú er orðið alveg ljóst að Mia Rej leikur ekki með danska landsliðinu á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í næsta mánuði. Hnémeiðsli sem hún varð fyrir á dögunum í deildarleik með Danmerkurmeisturum Odense Håndbold eru svo alvarleg að Rej verður frá keppni um nokkurt skeið. Rej hefur verið afar óheppin þegar kemur að stórmótum. Í fyrsta leik Dana á HM í desember sl. meiddist hún illa í fyrsta leik og tók ekkert meira þátt í mótinu.
- Auglýsing -