Í lánsbúningum hófu leikmenn ríkjandi heimsmeistara félagsliða, þýska meistaraliðið SC Magdeburg, titilvörn sína á með stórsigri á Sydney University Handball club í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins (IHF Super Globe) í Dammam í Sádi Arabíu í morgun, 41:23. Ómar Ingi Magnússon lék með liðinu á ný eftir fjarveru og skoraði fjögur mörk í jafn mörgum tilraunum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson kom lítið við sögu hjá Magdeburg sem á vafalaust eftir að mæta erfiðari andstæðingi á mótinu. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 20:8, Magdeburg í vil.
Lucas Mertens var markahæstur hjá Magdeburg með sjö mörk og Lucas Meister var næstur með sex mörk.
Búningarnir skiluðu sér ekki
Hluti af farangri Magdeburgliðsins skilaði sér ekki við komuna til Sádi Arabíu í gær. Þar á meðal keppnisbúningarnir. Félagið sagði frá því í morgun að af þeim sökum yrði leikið í lánsbúningum frá gestgjöfum mótsins í fyrsta leik. Vonir standa til þessa að búningarnir verði komnir til Damman á fimmtudaginn þegar Magdeburg mætir sádi arabískaliðinu Al Khaleej.
Haukur Þrastarson og samherjar í pólska meistaraliðinu Kielce taka einnig þátt í mótinu. Fyrsti leikur liðsins verður við Al-Kuwait í fyrramálið.