Unnur Ómarsdóttir, vinstri hornamaður KA/Þórs, fer ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik til Færeyja á morgun vegna meiðsla sem hún varð fyrir á æfingu í byrjun vikunnar. Í hennar stað hefur Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kallað inn Lilju Ágústsdóttur úr Val.
Lilja er nýliði í landsliðinu. Hún æfði með landsliðinu í haust og var í U19 ára landsliðinu sem hafnaði í áttunda sæti á HM í Norður Makedóníu í sumar.
Hildigunnur verður eftir heima
Hildigunnur Einarsdóttir, leikmaður Vals, fer heldur ekki með landsliðinu til Færeyja. Hún er að jafna sig af meiðslum sem hafa hrjáð hana um skeið. Hildigunnur verður klár í slaginn við ísraelska landsliðið í forkeppni HM á Ásvöllum 5. og 6. nóvember.
Kvennalandsliðið kom saman til æfinga á mánudag og hófst þar með undirbúningur fyrir leikina gegn Ísrael. Liðið hefur æft af krafti alla vikuna. Í fyrramálið fer landsliðið til Færeyja þar sem leiknir verða tveir leikir á laugardag og sunnudag, í Skála og Klaksvík.
Fyrr í vikunni var Katrín Tinna Jensdóttir, leikmaður Volda, valin í landsliðið eftir að Berglind Þorsteinsdóttir og Lovísa Thompson heltust úr lestinni vegna meiðsla.