Forsvarsemenn Þórs á Akureyri hafa sent Handknattleikssambandi Íslands tvær hugmyndir að lausn hvernig leika eigi það sem eftir er af Íslandsmótinu í handknattleik karla. Enn er óljóst hvenær heilbrigðisyfirvöld heimila að keppni hefjist á nýjan leik. Frá þessu er greint á akureyri.net í dag.
Aðeins var fjórum umferðum af 22 lokið í Olísdeild karla þegar keppni var frestað í byrjun otóber. Til viðbótar hefur ekkert verið leikið ennþá í Coca Cola-bikarnum, bikarkeppni HSÍ.
Annars vegar leggja Þórsarar til að leika bara fyrri umferð Íslandsmótsins, þ.e. 11 umferðir. Síðan taki við átta liða úrslitakeppni en tvö neðstu liðin spili úrslitakeppni við lið úr Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, um sæti í efstu deild næsta vetur. Bikarkeppnin verði eins og ráð sé fyrir gert.
Hins vegar að leika bara fyrri umferðina, svo átta liða úrslitakeppni en ekkert lið falli úr Olísdeildinni. Skoða jafnvel að fjölga í deildinni tímabundið og fleiri lið en venjulega falli þá næsta vetur. Bikarkeppnin verði eins og ráð sé fyrir gert.
Þorvaldur Sigurðsson, annar tveggja þjálfara Þórs, segir í samtali við akureyri.net að hann og fleiri óttist að það muni reynast mönnum mjög erfitt að leika þær átján umferðir sem eftir eru auk úrslitakeppni og bikarkeppni. Það komi niður á mönnum líkamlega sem ekkert hafa leikið handbolta síðan í október. Vitnar Þorvaldur í samtöl við sjúkraþjálfara og annað fagfólk í þeim efnum. Þá muni reynast erfitt fyrir menn að stunda vinnu og nám með miklu leikjaálagi og tilheyrandi ferðalögum landshluta á milli. Til viðbótar telur Þorvaldur að ef keppni verði teygð langt inn á sumar muni það kom niður á undirbúningi næsta sumar.
Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs, segir í samtali við akureyri.net að hugmyndir séu uppi á meðal þjálfara í Olísdeild kvenna að skera þriðjung af deildarkeppninni og leika tvöfalda umferð, 14 umferðir, í stað 21. Að loknum 14 umferðum taki við úrslitakeppni með hefðbundnum hætti. Aðeins þremur umferðum er lokið í Olísdeild kvenna.
Nánar er hægt að lesa umfjöllun akureyri.net hér.