- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kiel fyrst liða til að vinna Barcelona í 15 mánuði

Domagoj Duvnjak fyrir miðri mynd. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Kiel vann Barcelona með fimm marka mun, 33:28, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í karlaflokki í Lanxess-Arena í Köln í kvöld. Þetta er í fjórða sinn sem Kiel vinnur Meistaradeildina og í fyrsta skipti frá 2012. Barcelona, sem ekki hafði tapað leik í 15 mánuði, átti undir högg að sækja frá upphafi til enda og var aðeins einu sinni yfir í leiknum, 3:2.

Aron Pálmarsson lék stóran hluta leiksins. Hann skoraði eitt mark og átti fimm stoðsendingar. Þetta er í þriðja sinn sem Aron fær silfurverðlaun í Meistaradeildinni. Hann var í silfurliði Kiel 2014 og Veszprém 2016.

Síðast tapaði Barcelona kappleik fyrir Pick Szeged í september 2019 í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Fimm ár eru liðin síðan Barcelona vann Meistardeildina en þetta var í fyrsta sinn síðan þá að liðið leikur til úrslita í keppninni. Barcelona lék til úrslita í keppninni í tólfta sinn að þessu sinni.

Leikmenn Kiel hlaupa inn á leikvöllinn og fagna sigri í Meistaradeild Evrópu 2020. Mynd/EPA


Filip Jicha, þjálfari Kiel, er nú kominn í hóp með Talant Djushebaev og Roberto Garcia Parrondo en þeir hafa eiga það sameiginlegt að hafa unnið Meistaradeildina sem leikmenn og þjálfarar. Jicha var leikmaður Kiel þegar liðið vann Meistaradeildina 2010 og 2012.


Kiel vann Meistaradeild Evrópu 2007, 2010 og 2012 og er nú fyrst liða til að vinna keppnina þrisvar sinnum eftir að núverandi fyrirkomulag um svokallaða úrslitahelgi var tekið upp fyrir áratug.

Sigurdans leikmanna Kiel þegar sigur í Meistaradeild Evrópu 2020 var í höfn. Mynd/EPA


Kiel var með yfirhöndina nær allan fyrri hálfleikinn. Sóknarmenn Barcelona voru í mestu erfiðleikum gegn framliggjandi vörn Kiel-liðsins sem olli því að þýska liðið náði talsvert af hraðaupphlaupum. Þegar rétt innan við 20 mínútur voru liðnar af leiknum var Kiel með fjögurra marka forskot, 13:9, og átti þess kost að ná fimm marka forskoti. Barcelona-liðið náði að jafna metin í 15:15 þegar hálf þriðja mínúta var til hálfleiks. Leikmenn Kiel áttu lokasprettinn og skoruðu fjögur mörk gegn einu og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 19:16.


Raúl Entrerios mætti til leiks í byrjun síðari hálfleiks og stimplaði sig strax inn í leikinn með hraði eftir seinni bylgju Barcelona, 19:17. Nær komust leikmenn Barcelona ekki. Kiel-liðið hafði tögl og hagldir. Sandor Sagosen var frábær í sóknarleik Kiel en markvörðurinn Niklas Landin fór hinsvegar á kostum í marki liðsins. Hann var maðurinn sem sóknarleikur Barcelona strandaði á. Eftir að hafa verið með ríflega 20 % markvörslu í fyrri hálfleik þá kveiknaði á Dananum í síðari hálfleik. Hann var á tímabili með yfir 60 % hlutfallsmarkvörslu í hálfleiknum.

Niklas Landin var frábær í marki Kiel í síðari hálfleik í kvöld. Mynd/EPA


Barcelona-liðið lagði aldrei árar í bát þótt staðan væri slæm. Vörnin var góð þótt á ýmsu gengi í sóknarleiknum. Aleix Gómez skaut í slá úr vítakasti þegar þrjár og hálf mínúta var eftir í stöðunni 29:26. Í staðinn skoraði Niclas Ekberg úr vítkasti hinum megin vallarins skömmu síðari, 30:26. Þar með var sigurinn svo gott sem í höfn. Betra liðið fór með sigur úr býtum.

Það var eðlilega dauft yfir leikmönnum Barelona eftir tapið í úrslitaleiknum. Mynd/EPA


Mörk Kiel: Niclas Ekberg 8, Sandor Sagosen 7, Steffen Weinhold 5, Rune Dahmke 5, Hendrik Pekeler 4, Patrick Wiencek 2, Miha Zarabec 1, Harald Reinkind 1.
Mörk Barcelona: Aleix Gómez 10, Aitor Arino 4, Dika Mem 4, Luka Cindric 3, Ludovic Fabregas 3, Rául Enterrios 1, Aron Pálmarsson 1, Timothey N’guessan 1, Petrus dos Santos 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -