- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Elliði Snær skrifaði undir samning til 2025

Elliði Snær Viðarsson er að gera það gott með Gummersbach í Þýskalandi. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Eyjamaðurinn og landsliðsmaðurinn í handknattleik, Elliði Snær Viðarsson, hefur skrifað undir framlengingu á samningi sínum við þýska 1. deildarliðið VfL Gummersbach, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu í dag. Elliði Snær var samningsbundinn VfL Gummersbach fram á mitt næsta ár en nú er ljóst að hann staldrar við hjá félaginu alltént til ársins 2025.


Elliði Snær kom nokkuð óvænt til VfL Gummersbach í ágúst 2020 rétt eftir að Guðjón Valur Sigurðsson tók við þjálfun liðsins að loknum glæsilegum ferli sem handknattleiksmaður. Elliði Snær var einn lykilmanna liðsins þegar Gummersbach endurheimti sæti sitt í 1. deildinni í vor sem leið eftir nokkurra ára veru í 2. deild. Hann hefur á síðustu rúmu tveimur árum skipað sér í hóp leiðtoga liðsins.


Í tilkynningu frá VfL Gummersbach segir að nokkur lið hafi verið með Elliða Snæ undir smásjá en hann hafi kosið að vera áfram.


„Í mínum huga er Gummersbach stærsta félagið í Þýskalandi. Ég er ánægður og þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að leika með jafn stóru félagi með jafn glæsta sögu og Gummersbach.


Ég er hluti af ungu liði sem hefur tekið miklum framförum á síðustu mánuðum og árum. Ég vil gjarnan vera hluti af þessu liði áfram og leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Þess vegna valdi ég að vera áfram hjá Gummersbach,“ er m.a. haft eftir Elliða Snæ í tilkynningu frá VfL Gummersbach.


Elliði Snær hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu undanfarin tvö ár og leikið 23 A-landsleiki. Hann var m.a. með á HM í Egyptalandi 2021 og á EM upphafi þessa árs.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -