Danska stórstjarnan Mikkel Hansen veltir fyrir sér að draga sig út úr danska landsliðinu sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu handknattleik sem hefst í Egyptalandi 13. janúar. Hansen segist setja stórt spurningamerki við þá yfirlýsingu mótshaldara að selja allt að 5.000 áhorfendum aðgang á hvern leik keppninnar. Hansen segist óttast að verði svo margir áhorfendur á leikjum auki það hættu á að leikmenn smitist af kórónuveirunni.
„Ég skil ekki hvernig hægt að ætlast til þess að við leikmenn lifum í einangrun á hóteli milli þess að við mætum í íþróttasal með þúsundum áhorfenda,“ segir Hansen í samtali við Jyllands-Posten. Hansen vill ekki að áhorfendur verði á leikjum mótsins og að sömu reglu verði fylgt í þeim efnum og á EM kvenna í Danmörku í síðasta mánuði.
„Ég væri að ljúga ef ég segði ekki að í ljósi þessa er ég að íhuga alvarlega þátttöku mína á HM,“ segir Hansen sem stærsta handknattleiksstjarna Danmerkur en Danir eiga titil að verja á heimsmeistaramótinu.
„Að minnsta kosti velti ég því alvarlega fyrir mér hvernig þessu verður við komið og hvernig mótshaldarar telja það tvennt ganga upp eða vera forsvaranlegt að vera með þúsundir áhorfenda á leikjum,“ segir Hansen.
Nokkur hópur þýskra handknattleiksmanna gaf ekki kost á sér í landsliðið af persónulegum ástæðum.
Ashraf Sobhy, íþróttamálaráðherra Egypta, sagði á blaðamannafundi á dögunum að vel væri mögulegt að selja allt að 5.000 áhorfendum aðgang á hvern leik keppninnar til þess að tryggja stuðning við landslið Egypta í keppninni. Séð yrði til þess að sóttvarnir yrðu sómasamlegar.