- Auglýsing -
- Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof féllu úr leik í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gærkvöld. Þeir töpuðu öðru sinni fyrir Hammarby, 30:29, á heimavelli í gær. Við ramman reip var að draga eftir sex marka tap í Stokkhólmi fyrir rúmri viku. Tryggvi skoraði eitt mark í leiknum í gær. Auk Hammarby eru Hallby, Ystads IF HF og IFK Kristianstad komin í undanúrslit.
- Ómar Ingi Magnússon leikmaður Þýskalandsmeistara SC Magdeburg er í liði 13. umferðar í þýsku 1. deildinni í handknattleik sem fram fór um nýliðna helgi. Ómar Ingi lék afar vel þegar Magdeburg tapaði naumlega á heimavelli fyrir THW Kiel, 34:33. Skoraði hann m.a. níu mörk og átti þrjár stoðsendingar.
- Richard Sæþór Sigurðsson hornamaður Selfoss gekkst undir aðgerð á öxl á dögununum og leikur ekki með liðinu á nýjan leik fyrr en eftir áramótin. Sömu sögu er að segja af Ragnari Jóhannssyni sem ekkert hefur leikið með Selfossliðinu í vetur. Hann var einnig undir læknishendi á dögunum og verður vart klár í slaginn fyrr en eitthvað verður liðið inn á þorra.
- Birkir Benediktsson, stórskytta Aftureldingar, tognaði í aftanverður öðru læri í síðari hálfleik í viðureign Aftureldingar og Selfoss á Varmá í gærkvöld. Næsti leikur Aftureldingar verður við FH í Kaplakrika á næsta mánudag.
- Á fyrstu 20 mínútum viðureignar Aftureldingar og Selfoss á Varmá í gærkvöld var þrisvar sinnum litið í varsjána, þ.e. dómarar leituðu í upptöku frá leiknum til þess að úrskurða um dóma. Í kjölfar fyrstu athugunar fékk Gunnar Kristinn Þórsson Malmquist, Aftureldingu, rautt spjald fyrir brot á Ísaki Gústafssyni, Selfossi.
- Þar á eftir fékk Gísli H. Jóhannsson, eftirlitsmaður, að glöggva sig ásamt Antoni Gylfa Pálsson, dómara. Gísla grunaði að Aftureldingarmaður hefði verið of bráður að fara inn á leikvöllinn í skiptum við Jovan Kukobat markvörð Mosfellinga þegar heimamenn voru manni færri. Gísli reyndist eiga kollgátuna og varð Blær Hinriksson að dvelja utan vallar í tvær mínútur í kjölfarið.
- Þriðja atvikið var þegar Jónas Elíasson dómari vildi vera viss um að Afturelding hafði ekki skorað eftir að þrumuskot hafnaði í þverslánni og skoppaði niður á marklínunni. Jónas fékk vissu sína staðfesta, ekkert mark.
- Christian Prokop fyrrverandi landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik karla hefur framlengt samning sinn um þjálfun Hannover-Burgdorf til ársins 2025. Heiðmar Felixson fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik er hægri hönd Prokop. Hannover-Burgdorf situr í níunda sæti af 18 liðum þýsku 1. deildarinnar með 14 stig að loknum 11 leikjum.
- Auglýsing -