- Auglýsing -
- Auglýsing -

Myndir – Fjölmennt þegar FH heiðraði Geir Hallsteinsson

Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, og Geir Hallsteinsson. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Geir Hallsteinsson fyrrverandi landsliðsmaður og einn allra fremsti og snjallasti handknattleiksmaður Íslands var heiðraður áður en viðureign FH og Aftureldingar hófst í Kaplakrika í gærkvöld.


Athöfnin var fjölmenn og glæsileg en meðal gesta var forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson. Geir voru afhentar gjafir frá Hafnarfjarðarbæ, aðalstjórn og handknattleiksdeild FH. Frá árinu 1990 hefur Geir verið starfsmaður íþróttahússins í Kaplakrika. Hann lætur af störfum um áramótin.


Geir, sem fæddist 1946, er Hafnfirðingur í húð og hár og lék nánast allan sinn feril með FH auk þess að verða sá fyrsti til þess að leika með liði í efstu deild í Þýskalandi en Geir gekk til liðs við Göppingen 1973.


Geir varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari í handknattleik innanhúss og utan, bæði sem leikmaður og síðari þjálfari. Nafn Geirs og fjölskyldu hans er samofið iðkun og sögu handknattleiks á Íslandi frá því íþróttin barst til landsins og fram til dagsins í dag.


Myndskeið sem tekið var saman þegar Geir var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ:


Geir var um árabil burðarás í íslenska landsliðinu og lék alls 118 landsleiki og skoraði í þeim 531 mark. Hann var kjörinn Íþróttamaður ársins 1968 af Samtökum íþróttafréttamanna, fyrstur karlkyns handknattleiksmanna. Árið 2016 var Geir tekinn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.


Geir lék íslenska landsliðinu á HM 1970, 1974 og 1978 og í B-heimsmeistaramótinu 1977 og var einnig með þegar íslenska landsliðið tók í fyrsta sinn þátt í Ólympíuleikum árið 1972. Geir var þá fánaberi íslenska keppnishópsins við setningaathöfn leika á Ólympíuleikvanginum í München 1972.


Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá Jóa Long frá skemmtilegri og góðri kvöldstund í Kaplakrika til heiðurs Geir sem félag hans stóð að svo mikill sóma var að. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -