Færeyskir fjölmiðlar greina frá því í dag að átta af 22 sem voru í tékkneska landsliðshópnum sem kom til Færeyja í gær hafi greinst smitaðir af kórónuveirunni. Hallur Danielsen hjá Handknattleikssambandi Færeyja staðfestir fjöldan í samtali við in.fo í dag.
Smitin komust upp við skimun á landamærum við komu hópsins í Vága í gær. Hópurinn var í sóttkví og vonir standa til þess að smit hafi ekki borist út í samfélagið í Færeyjum.
Tékkneska landsliðið átti að mæta færeyska landsliðinu í undankeppni EM í Þórshöfn í kvöld. Ekkert verður af því og mun tékkneska landsliðið vera farið eða í þann mund að fara heim frá Færeyjum.
Ljóst er að ástandið er alvarlegt í tékkneska landsliðshópnum sem á að taka þátt í HM í Egyptalandi sem hefst eftir viku. Engin veit enn hvaða áhrif það hefur haft á aðra í hópnum að ferðast og dvelja með hinum smituðu áður en upp komst um ástand þeirra.
Fyrir utan leikmennina átta þá urðu báðir þjálfarar liðsins, Jan Filip og Daniel Kubes, eftir heima vegna þess að þeir voru þegar komnir í einangrun.