- Auglýsing -
- Auglýsing -

Telur möguleika fyrir hendi gegn Dukla

Magnús Stefánsson t.h. tekur við þjálfun ÍBV eftir keppnistímablið af Erlingi Richardssyni t.h. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

„Það er alltaf erfitt að átta sig á raunverulegri getu með því að skoða upptökur af leikjum. Dukla er í fjórða sæti í deildinni, svo sem ekki langt frá toppnum. Það má segja að uppbygging Dukla-liðsins sé svipuð og okkar. Talsvert er af yngri leikmönnum í bland við eldri og reyndari,“ sagði Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í morgun.


Erlingur er staddur með sveit sína í Prag þar sem fyrir dyrum standa tveir leikir við Dukla á morgun, laugardag, og á sunnudag í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik, 3. umferð.

Hugsanlega áþekk lið

„Innan Dukla ríkir akademíuhugsunarháttur, það er að byggja upp leikmenn og hjálpa þeim að komast í stærri lið þegar þeir hafa eflst af styrk og getu.


Þar af leiðandi má kannski segja að mörgu leyti séu liðin áþekk,“ sagði Erlingur og er vongóður um að ÍBV geti staðið tékkneska liðinu á sporði.


„Eins og ég les í stöðuna þá held ég að möguleiki sé fyrir hendi af okkar hálfu. Við förum að minnsta kosti af fullum þunga inn í leikina og teljum möguleika okkar vera góða. Hinsvegar er ljóst að til þess að svo megi verða þurfum við að leggja okkur fram og gera hlutina vel,“ sagði Erlingur hvergi banginn.

Allir fóru með

Allur leikmannahópur ÍBV fór til Prag. Þannig fá menn að upplifa keppnisferðalag og undirbúning fyrir Evrópuleik á útivelli og öðlast reynslu af þessu öllu saman. „Það er kærkomið fyrir hópinn að vera saman í nokkra daga og styrkja böndin og samstöðuna innan liðsins. Maður veit aldrei hversu langt maður kemst í Evrópukeppninni hverju sinni. Þar af leiðandi er kjörið að gefa sem flestum nasaþefinn af þessu þegar möguleiki er fyrir hendi,“ sagði Erlingur.

Kári er á tæpasta vaði

Kári Kristján Kristjánsson tognaði í kálfa fyrir leikinn við Val á síðasta laugardag og var ekki með þá og verður vart með um helgina, alltént ekki í fyrri viðureigninni. „Kári er að minnsta kosti tæpur fyrir leikina. Við sjáum til hvað setur. Meiðsli af þessum toga þurfa sinn tíma til að batna,“ sagði Erlingur ennfremur í samtali við handbolta.is í morgun.

Handbolti.is ætlar að fylgjast með viðureignum ÍBV-liðsins og Dukla Prag eftir fremsta megni. Ekki liggur fyrir hvort streymt verður frá leikjunum í Prag.

Fyrri leikurinn hefst klukkan 13 á morgun, laugardag. Flautað verður til síðari viðureignarinnar í DHC Sport Hall í Prag klukkan 17 á sunnudaginn.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -