- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Staðan er óneitanlega sérstök“

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Alexander líður betur í dag. Hann ætlar að taka þátt í æfingunni á eftir og þá kemur betur í ljós hvernig framhaldið verður hjá honum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Schenkerhöllinni á Ásvöllum síðdegis.

„Að öðru leyti þá sýnist mér menn vera í nokkuð góðu standi þótt enn séu einhverjir lemstraðir eftir leikinn í Portúgal á miðvikudagskvöldið. Þessi æfing sker úr um hvort við gerum einhverjar breytingar á liðinu fyrir leikinn á morgun,“ sagði Guðmundur sem taldi nær fullvíst að hann gerir breytingar á hópnum frá leiknum á miðvikudaginn.

Hvort komi til greina að hvíla fleiri leikmenn en Alexander sem fékk höfuðhögg í leiknum á miðvikudaginn vildi Guðmundur ekki nefna nein nöfn í því sambandi. „Það verða einhverjar breytingar á hópnum.“


Hvort hann væri tilneyddur til að gera breytingar eða hvort þær komi til af því að hann vildi leyfa fleirum að spreyta sig, svaraði Guðmundur: „Við erum að fara í mikilvægan leik á morgun en erum á sama tíma að fara á stórmót. Hinsvegar er alveg ljóst að við verðum að einbeita okkur að leiknum á morgun áður en kemur að HM. Við verðum að leika með okkar sterkasta lið og ná í tvö stig en á sama tíma að gefa fleiri leikmönnum tækifæri. Staðan er óneitanlega sérstök,“ sagði Guðmundur sem var nokkuð léttur í bragði fyrir æfinguna á Ásvöllum í dag.


Íslenska landsliðið mætir portúgalska landsliðinu í Schenkerhöllinni klukkan 16 á morgun í undankeppni EM, ríflega hálfum sólarhring áður en liðin halda af stað til Egyptalands.


„Síðari hálfleikur ytra var nokkuð góður þar sem okkur tókst að opna nokkuð vel vörn Portúgala. Fyrri hálfleikur var kaflaskiptari þar sem við fórum oft illa að ráði okkar í góðri stöðu. Meðal annars þá tókst okkur ekki að skora í tvígang eftir snögg upphlaup á þeim tíma sem markvörður Portúgals var ekki marki sínu. Það þarf ekki mikið til að sóknarleikurinn verði betri. Fyrst og fremst verður nýting okkar að batna því við lékum okkur oft í góð færi, ekki síst í síðari hálfleik,“ sagði Guðmundur Þórður.


„Stefnan er að sjálfsögðu að vinna leikinn og bæta leik okkar einnig. Eins þurfum við að komast í gegnum leikinn án meiðsla vegna þess að HM er framundan. Staðan er snúin,” sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -