- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsta æfingin í mánuð – verkjalaus og jákvætt

Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður íslenska landsliðsins og franska liðsins Nantes. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Þetta var fyrsta alvöru æfingin mín í mánuð, enginn verkur í olnboganum. Það er jákvætt,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður glaður í bragði í samtali við handbolta.is í eftir æfingu landsliðsins í Safamýri kvöld. Viktor Gísli meiddist öðru sinni á olnboga í leik með Nantes í Frakklandi fyrir mánuði. Síðan hafa verið vangaveltur um þátttöku hans á heimsmeistaramótinu sem stendur fyrir dyrum en fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 12. janúar við landslið Portúgal.

Þarf ekki nema eitt vont skot

„Ég hef verið verkjalaus dags daglega í nærri þrjár vikur en maður þarf ekki nema eitt vont skot til þess að allt fari í sama farið aftur, game over. Það er sú hætta fyrir hendi og við hana verður maður að búa um þessar mundir,“ sagði Viktor Gísli sem á von á nýrri spelku um olnbogann. Hún á að styðja betur við og koma betur í veg fyrir að yfirspenna komi á olnbogann við högg, t.d. þegar skot er varið.

Bíður eftir nýrri spelku

„Ég á von á nýrri spelku en ég var í þeirri gömlu í dag og það var alveg í lagi. Ég vonast eftir nýju spelkunni sem fyrst. Nýja spelkan á að vera stífari. Sú sem ég er með er ekki alveg nógu góð en með góðri teipingu hjá Jónda eða Ella þá heldur hún ágætlega. Maður þarf aðeins að gæta þess að herða á henni reglulega,“ sagði Viktor Gísli sem hefur glímt við meiðsli í hægri olnboga síðan um miðjan september. Hann hafði jafnað sig þokkalega vel þegar á ný varð yfirspenna á olnboganum fyrir um mánuði í kappleik með Nantes.

Óvíst er hvort nýja spelkan verði komin í hendurnar á landsliðsmarkverðinum áður en íslenska landsliðið heldur til Þýskalands á föstudagsmorgun hvar það leikur við þýska landsliðið tvo vináttuleiki á laugardag og sunnudag.

Aðeins rætt í jólaboðunum

Viktor Gísli sagðist ekki velta mikið fyrir sér þeirri spennu og eftirvæntingu sem ríkti meðal þjóðarinnar fyrir íslenska landsliðinu og þátttöku þess á heimsmeistaramótinu. Hann hafði þó ekki alveg komist hjá því að fá veður af eftirvæntingunni. „Það var aðeins rætt um þessi mál í jólaboðunum,“ sagði pilturinn yfirvegaður að vanda.

Byrjum á að komast upp úr riðlinum

„Í mínum huga snýst allt um fyrsta leik og síðan þann næsta á eftir og koll af kolli. Mestu máli skiptir að komast upp úr riðlinum og ná inn í milliriðil. Það er eina vitið. Hugsa um einn leik í einu. HM framundan verður mitt fjórða mót svo ég þekki betur og betur hvað ég er að fara út í. Fyrst og fremst er ég spenntur,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson sem vonast til þess að leika sem mest með í Þýskalandi um næstu helgi til þess að komast í leikform á ný eftir fjarveru frá keppnisvellinum síðan í byrjun desember.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -