Einn leikur verður á dagskrá Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld og það er sannkallaður stórleikur. Stjarnan fær ÍBV í heimsókn í TM-höllina í Garðabæ klukkan 18.
Liðin eru jöfn í öðru sæti Olísdeildar með 16 stig hvort eftir 10 leiki, þremur stigum á eftir Val sem er efstur með 19 stig að loknum 11 leikjum. Eftir leikinn í TM-höllinni hafa öll liðin í deildinni lokið 11 viðureignum hvert. Tíu umferðir verða óleiknar.
Stjarnan vann fyrri viðureign liðanna sem fram fór í Vestmannaeyjum 24. september, 24:22.
ÍBV varð um síðustu helgi fyrsta liðið á keppnistímabilinu til þess að vinna efsta lið deildarinnar Val í Origohöllinni, 32:29. Stjarnan hóf árið á sigri á HK í Kórnum, 26:22. Reikna má með spennandi leik í TM-höllinni.
Leikur kvöldsins
Olísdeild kvenna – 9. umferð:
TM-höllin: Stjarnan – ÍBV, kl. 18 – sýndur á Stöð2sport.
Staðan í Olísdeild kvenna og næstu leikir.
HM hefst í Póllandi
Rétt er að minna á að flautað verður til leiks á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í kvöld þegar Pólverjar og Frakkar mætast í Katowice klukkan 20. Liðin leika í B-riðli.
Keppni á HM fer á fullt á morgun með sjö leikjum. Þar á meðal viðureign Íslands og Portúgal í Kristianstad.