„Talandi um kaflaskiptan leik þá var þetta kennslubókardæmi,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari ÍBV hress að vanda eftir sigur liðsins á Stjörnunni, 22:18, í Olísdeild kvenna í handknattleik í TM-höllinni í kvöld. ÍBV komst með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar, aðeins stigi á eftir Vals.
Marta var frábær
ÍBV skoraði sjö fyrstu mörk fyrri hálfleiks og átta fyrstu mörkin í síðari hálfleik. „Ástæðan fyrir sjö núll forskotinu í fyrri hálfleik var ekki sú að við lékum frábærlega heldur var Marta frábær í markinu. Hún varði fyrstu sjö skotin sem komu á markið.
Sóknarleikurinn var hörmulegur hjá okkur allan fyrri hálfleikinn og ég var mjög ósáttur inn í klefa í hálfleik. Þess vegna sagði ég nokkur vel valin orð við leikmenn mína,“ sagði Sigurður sem taldi engan vafa leika á að orð hans hafi hrifið.
Allt annað yfirbragð í síðari
„Mér fannst allt annað yfirbragð á liðinu í upphafi síðari hálfleiks. Þá var ekki bara Marta góð heldur var vörnin flott og sóknarleikurinn mun betri. Ég var ánægður með síðari hálfleikinn hjá okkur en sá fyrri var sá slakasti sem við höfum leikið í vetur, að undanskilinni frammistöðu Mörtu í markinu. Hún var frábær,“ sagði Sigurður ennfremur sem fagnaði áttunda sigri ÍBV í röð í deild og í bikar.
Fyrri hálfleikur var áminning
„Síðan í október hefur liði verið frábært. Við töpuðum síðast fyrir Val í hörkuleik í október. Fyrri hálfleikur var hinsvegar áminning um að það getur verið stutt í skítinn. Ég get hinsvegar ekki beðið um meira en átta sigurleiki í röð. Við unnum Val á Hlíðarenda á laugardaginn og komum svo hingað í TM-höllina þremur dögum síðar og vinnum. Það er sterkt,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari ÍBV í samtali við handbolta.is í TM-höllinni í kvöld.
Staðan og næstu leikur í Olísdeild kvenna.