- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Maður er aftur orðinn nýliði“

Oddur Gretarsson við hótel íslenska landsliðsins á HM í Egyptalandi 2021. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Maður er aftur orðinn nýliði í landsliðinu, bara aðeins reyndari nýliði en fyrir áratug eða svo,“ sagði Oddur Gretarsson, landsliðsmaður í handknattleik og brosti í samtali við handbolta.is fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í handknattleik í Kaíró í dag. Átta ár eru liðin síðan Oddur var síðasta á stórmóti, EM2012, og níu ár eru síðan hann tók síðast þátt í HM.
Fjórir leikmenn fyrir utan Odd voru í íslenska landsliðshópnum á EM2012 í Serbíu þegar Oddur var síðast með. Alexander Petersson, Björgvin Páll Gústavsson, Kári Kristján Kristjánsson og Ólafur Andrés Guðmundsson.

„Það hefur eðlilega orðin mikil endurnýjun á hópnum á átta árum. Reyndar er sami þjálfarinn þá og nú, Guðmundur [Þórður Guðmundsson]. Hann er eini þjálfarinn sem hefur valið í mig í A-landslið. Umgjörðin er breytt og ekki sambærileg í ljós aðstæðna nú og 2012,“ sagði Oddur sem leikur með þýska 1. deildarliðinu Balingen-Weilstetten en alls hefur Oddur leikið í Þýskalandi í átta ár.


„Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til þess að koma inn í þennan hóp á nýjan leik eftir allan þennan tíma,“ sagði Oddur sem fékk lítið að spreyta sig í viðureignunum tveimur gegn Portúgal í undankeppni EM. Hann segir nokkuð ljóst hvert sitt hlutverk í landsliðinu verði.
„Ég held að það sé klárt að Bjarki [Már Elísson] er okkar vinstri hornamaður númer eitt. Ég verð að vera klár í slaginn þegar tækifæri gefst og á þarf að halda. Ég bíð spenntur eftir að fá mitt tækifæri og mun búa mig undir hvern leik eins og ég sé að fara að byrja. Um leið þá tek ég af fullum krafti þátt í æfingum og reyni að sýna það sem ég get. Mér hefur fundist vel ganga á æfingum og vonandi fæ ég tækifæri til þess að sýna mig og sanna,“ sagði Oddur.


Á morgun hefur íslenska landsliðið keppni á HM í Egyptalandi þegar það mætir portúgalska landsliðinu í New Capital sport hall-íþróttahöllinni í Kaíró. Oddi þykir sennilegt að um sé að ræða úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum. „Þetta er að minnsta kosti fyrsti úrslitaleikurinn. Allir leikir í svona stórri keppni eru mikilvægir.

Portúgalska liðið er vel skipað. Uppistaðan eru úr liði Porto sem leikur í Meistaradeild Evrópu. Allt menn sem eru vanir að leika saman. Þeir eru mjög erfiðir, snöggir, sterkir í vörninni og hafa auk þess góðan markvörð. Ég er hrifinn af þessu liði og hvernig það hefur þróað sinn leik á undanförnum árum,“ sagði Oddur sem undirstrikar að úrslitin í níu marka sigrinum á Ásvöllum á sunnudaginn, 32:23, gefi ekki rétta mynd af getu Portúgala.


„Mér fannst portúgalska liðið gefa talsvert eftir þegar það lenti undir í síðari hálfleik. Leikurinn á morgun verður allt öðruvísi. Við verðum væntanlega að leika betur á morgun en við gerðum í síðari hálfleik á sunnudaginn,“ sagði Oddur ennfremur.


„Til þess að eiga möguleika á að komast langt í mótinu verðum við að ná tveimur stigum úr leiknum. Þar með aukast möguleikar okkar á að fara með sem flest stig áfram í milliriðil,“ sagði Oddur Gretarsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is á vettvangi heimsmeistaramótsins, Kaíró í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -