Átta dómarar sem dæma reglulega eða dæmdu reglulega nokkra af helstu leikjum félagsliða og landsliða í evrópskum handknattleik liggja undir grun um að hafa gerst sekir um veðmálasvindl í á þriðja tug leikja frá september fram í nóvember 2017. TV2 í Danmörku opnaði málið í morgunsárið og hefur fjallað ýtarlega um það í dag.
Tvö pör eru nafngreind
Meðal þeirra sem nafngreindir hafa verið í fréttum TV2 í Danmörku, sem hefur komist yfir skýrslu sem Sportradar gerði, eru Króatarnir Matija Gubica og Boris Milosevic, sem af mörgum þykja besta dómararpar heims um þessar mundir, og Norður Makedóníumennirnir Gjorgij Nachevski og Slave Nikolov. Faðir þess fyrrnefnda hefur lengi verið í yfirmaður dómaramála innan Handknattleikssambands Evrópu. Bæði pörin dæma á HM sem stendur yfir í Póllandi og Svíþjóð.
Í skýrslu Sportradar, sem er greiningarfyrirtæki sem m.a. hefur unnið með UEFA og fleiri samböndum að upprætingu veðmála svindls, er Gubica og Milosevic sakaðir um að hafa tekið þátt í hagræða úrslitum sjö leikjum á hæsta stigi handboltans á ofangreindu tímabili og dæmi eru nefnd í fréttum TV2.
Óvenju mörg dæmi
Chris Kronow Rasmussen, sérfræðingur í málefnum tengdum hagræðingum úrslita, segir við TV2 að tilfellin sem bent sé á í skýrslu Sportradar vera óvenju mörg og ljóst sé að Handknattleikssamband Evrópu, EHF, verði að grípa af ákveðni í taumana. Það hafi hinsvegar ekki verið gert því skýrslan sé frá árinu 2018 og fátt bendi til að eitthvað hafi verið gert.
Ekki ástæða til aðgerða
Thomas Schöneich, upplýsingafulltrúi EHF, segir í skriflegu svari til TV2 að EHF hafi farið yfir atriðin í skýrslunni sem snúi að dómarapörunum átta. Að mati EHF hafi ekki verið ástæða til þess að refsa dómarapörunum.
Verður gefinn gaumur
Í tilkynningu frá Alþjóða handknattleikssambandinu til TV2 segir m.a. að IHF beri traust til dómaranna en sé um leið í sambandi við EHF vegna málsins. Frammistöðu þeirra á HM verði gefinn sérstakur gaumur.
Sem fyrr segir þá opnaði TV2 í Danmörku málið í morgun og hefur síðan fjallað ýtarlega um það í mörgum greinum.