Landslið Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar, tapaði fyrir Egyptum með fjögurra marka mun í fyrsta leik dagsins í annarri umferð í milliriðli fjögur á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Malmö í dag, 26:22. Egyptar eru það með áfram taplausir í mótinu. Þeir mæta heimsmeisturum Dana á mánudagskvöldið. Víst er að Danir og Egyptar fara áfram í átta liða úrslitum úr milliriðli fjögur.
Bareinar héldu í við Egypta framan af leiknum í dag, m.a. 7:7. Hið afar sterka lið Egypta seig síðan fram úr og var með yfirhöndina allt til leiksloka. Barein var fjórum mörkum undir í hálfleik, 13:9.
Barein er í þriðja sæti riðilsins en ósennilegt er að sú verði raunin eftir að öllum leikjum riðilsins verður lokið. Króatar eru einu stigi á eftir og mæta Belgum síðar í dag.
Vandalaust hjá Serbum
Serbar unnu öruggan sigur á Argentínumönnum í milliriðli þrjú í Katowice, 28:22. Serbneska liðið er þar með komið upp í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig eins og Hollendingar sem eiga fyrir höndum leik við Þjóðverja á eftir.
HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan